Landslið

EM 2016 - Jafntefli gegn Portúgal í fyrsta leik Íslands á EM

Ísland og Portúgal skildu jöfn

14.6.2016

Ísland gerði í kvöld 1-1 jafntefli við Portúgal í fyrsta leik liðanna á EM í Frakklandi. Nani kom Portúgal yfir í fyrri hálfleik en Birkir Bjarnason jafnaði metin með glæsilegu marki í byrjun seinni hálfleiks. Gott stig fyrir Ísland og góð byrjun á EM í Frakklandi.

Það verður að byrja að minnast á umgjörð leiksins en allt hófst þetta á því að um 8000 stuðningsmenn Íslands sungu þjóðsönginn af stakri snilld. Stuttu síðar var leikurinn blásinn á og það með fyrsti leikur karlalandsliðsins í lokakeppni stórmóts. 

Leikurinn byrjaði vel en Ísland fékk frábært færi fljótlega í leiknum þegar Gylfi Þór Sigurðsson komst einn gegn markmanni en Patrício varði vel. Hannes Þór Halldórsson, markmaður Íslands, var líka á tánum stuttu síðar þegar hann varði glæsilega í tvígang. Fyrst skalla frá Nani sem Hannes varði glæsilega með fótunum en svo sendingu sem var við það að fara yfir hann og í markið.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Á 31. mínútu komst Portúgal yfir þegar Nani skoraði eftir laglega sendingu fyrir íslenska markið.  Liðin náðu ekki að skapa sér teljandi færi eftir það en Portúgal var mun meira með boltann en íslenska liðið varðist af krafti. 1-0 í hálfleik.

Leikurinn byrjaði fjörlega í seinni hálfleik en það voru Íslendingar sem jöfnuðu leikinn á 50. mínútu leiksins. Birkir Bjarnason fékk boltann í vítateig Portúgal og hamraði boltanum í netið. Fyrsta mark Íslands í lokakeppni stórmóts staðreynd! 

Leikurinn róaðist töluvert eftir þetta en íslenska liðið varðist gríðarlega vel og leyfði Portúgal lítið að komast áleiðis. Ísland hefði getað komist yfir þegar stutt var eftir af leiknum en þá fékk Alfreð Finnbogason gott færi sem markmaður Portúgals varði.

Portúgal fékk tvær aukaspyrnur undir lok leiksins sem Ronaldo tók en hvorug fór nálægt markinu og niðurstaða leiksins 1-1 jafntefli og frábært stig í þessum fyrsta leik Íslands á lokamóti. 

Smelltu hérna til að skoða myndir úr leiknum.

Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög