Landslið

EM 2016 - Sárgrátlegt jafntefli gegn Ungverjum

Ísland er með 2 stig í riðlinum

18.6.2016

Ísland  gerði í kvöld jafntefli við Ungverja í Marseille. Mark Íslands kom úr vítaspyrnu en það var Gylfi Þór Sigurðsson sem skoraði eftir að brotið var á Aroni Einari í vítateignum. Ungverjar náðu að jafna metin undir lok leiksins en það var Birkir Már Sævarsson sem varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark eftir sendingu fyrir mark Íslands.

Leikurinn byrjaði heldur rólega en liðin tóku sér ágætan tíma í að þreifa hvort á öðru til að byrja með. Fyrsta alvöru færi leiksins kom á 30. mínútu þegar Jóhann Berg Guðmundsson komst einn á móti Gabor Kiraly en hinn fertugi markmaður náði að verja vel. Það var samt Ísland sem skoraði fyrsta mark leiksins en Ísland fékk vítaspyrnu á 39. mínútu eftir að brotið var á Aroni fyrirliða Íslands í vítateignum.

Gylfi Þór Sigurðsson fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi og kom Íslandi í 1-0. Þetta var staðan í hálfleik en Ísland lék, eins og í leiknum gegn Portúgal, góðan og þéttan varnarleik sem sá til þess að Ungverjar komist lítt áleiðis.

Seinni hálfleikur byrjaði fjörlega en Ungverjar settu enn meiri kraft í sóknarleikinn og það hentar okkur Íslendingum ágætlega upp á skyndisóknir. Aron Einar fyrirliði fór af velli á 65. mínútu og kom Emil Hallfreðsson á miðjuna í hans stað. Alfreð Finnbogason kom einnig inn á fyrir Jón Daða en Alfreð fékk gult spjald í leiknum gegn Portúgal og aftur gegn Ungverjum og er því í leikbanni gegn Austurríki. Seinasta skipting Íslands var þegar Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á fyrir Kolbein Sigþórsson við dynjandi lófaklapp þeirra 9000 stuðningsmanna Íslands sem voru á vellinum.

Það stefndi allt í sigur Íslands en þegar stutt var eftir kom sending fyrir mark Íslands og Birkir Már Sævarsson varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark. Liðin náðu ekki að skora það sem eftir lifði leiks og lauk leiknum því með jafntefli.

Ísland er því með 2 stig í riðlinum en Ungverjar eru með 4 stig.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög