Landslið

EM 2016 - Ragnar Sigurðsson: „Þetta var fáránlega svekkjandi”

Ragnar segir það ekki standa til að hengja haus

18.6.2016

Ragnar Sigurðsson átti góðan leik í vörn Íslands í kvöld. Ragnar segir liðið hafa varist full mikið í leiknum á kostnað sóknarleiksins. „Þetta var fáránlega svekkjandi. Við náðum að verjast vel allan leikinn, en vorum kannski að verjast of mikið," sagði Ragnar í samtali við fjölmiðla í leikslok.

„Við sóttum eiginlega ekki neitt. Þegar við unnum boltann vorum við svo langt niðri og allir voru dálítið þreyttir. Það var erfitt að fá upp eitthvað spil. Við ætluðum að reyna að sækja aðeins meira en við gerðum gegn Portúgal, en þegar leikurinn byrjar þá hugsar maður "save" og tekur bara langan boltann. Við héldum bara áfram að gera það þangað til við skoruðum. Þá fer maður að hugsa um að verja þetta eina mark, að minnsta kosti fram að hálfleik, og svo ætluðum við að reyna sækja aðeins meira, en það bara gerðist ekki."

Íslensku leikmennirnir voru margir hverjir orðnir þreyttir undir lokin og það hafi sést í leik liðsins.
„Þeir voru einum manni fleiri á miðjunni og miðjumennirnir okkar voru að hlaupa eins og dýr. Við Kári þurftum kannski ekki að hlaupa eins mikið, heldur að standa í okkar stöðum, og passa fyrirgjafirnar. Maður sá það alveg og vissi að þeir yrðu þreyttir. Ég er varnarmaður og mér líður vel þegar ég er að verjast. Það var ekkert vandamál, þeir voru ekki að skapa neitt nema einhver langskot sem Hannes var að taka auðveldlega."

Ragnar segir leikmenn Íslands hafi verið niðurlútir eftir leikinn en það stendur ekki til að hengja haus. „Það var mjög þungt andrúmsloft í klefanum. Menn voru dálítið að tuða í hvor öðrum. Þetta var ekki neinum einum að kenna heldur verðum við að reyna sækja aðeins meira ef við ætlum að vinna leiki.”Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög