Landslið

U21 karla - Eyjólfur: „Ætlum okkur beint í úrslitakeppnina”

Ísland leikur við Norður Íra á morgun, föstudag

1.9.2016

Íslenska U21 landsliðið leikur tvo mikilvæga leiki í undankeppni EM næstu dag en það er leikur gegn Norður Írum á morgun, föstudag, og leikur gegn Frökkum sem verma toppsætið sem stendur í riðlinum. Eyjólfur Sverrisson, landsliðsþjálfari, á von á erfiðum leik og það gefi ekki rétt mynd af Norður Írum ef horft er á stöðuna í riðlinum.

„Ég býst við mikilli baráttu í leiknum. Þeir hleypa leikjum sínum upp í baráttu og slagsmál en við ætlum að halda okkur við fótboltann og vera fljótir að færa boltann á milli vallarhelminga þannig að við náum að brjóta þá á bak aftur,” segir Eyjólfur en hann segir Norður Írska liðið hafa leikið vel í undankeppninni þrátt fyrir að vera einungis með eitt stig, sem þeir fengu á Íslandi.

„Þeir eru með fínt lið og þeir stóðu sig vel á Íslandi. Aðstæður voru erfiðar, rok og rigning, þannig að þetta varð baráttuleikur. Við fengum færi til að klára leikinn en við náðum ekki að nýta færin og þá verða leikirnir erfiðir. En við verðum að ná að nýta færin núna gegn þeim.”

Eyjólfur segir markmiðin skýr. „Þetta er mjög jafn riðill og mikið af jafnteflum þannig að við ætlum okkur að ná efsta sætinu og komast beint í úrslitakeppnina.”

Viðtal við Eyjólf og leikmenn liðsins má finna á YouTube síðu KSÍ.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög