Landslið

A karla - Gott stig í fyrsta leiknum í undankeppni HM

Allir leikir riðilsins enduðu með jafntefli

5.9.2016

Eitt stig var niðurstaðan þegar Ísland hóf leik í undankeppni HM en fyrsti leikurinn fór fram fyrir tómum velli í Kænugarði.  Lokatölur urðu 1 - 1 og komu bæði mörkin í fyrri hálfleik.  Alfreð Finnbogason kom Íslandi yfir á 6. mínútu en heimamenn jöfnuðu 41. mínútu.

Íslendingar fengu svokallað óskabyrjun þegar Alfreð Finnbogason skorað af harðfylgi eftir góða sendingu frá Birki Bjarnasyni.  Jón Daði Böðvarsson fékk svo gott færi til að bæta marki við skömmu síðar en markvörður heimamann varði vel frá honum og seinna skot Jóns Daða fór naumlega yfir markið.  Íslendingar voru léku vel í fyrri hálfleik og það var því nokkuð gegn gangi leiksins að heimamenn jöfnuðu á 41. mínútu.

Síðari hálfleikurinn var að mestu í eign heimamanna sem héldu boltanum vel innan liðsins en íslenska liðið varðist vel og skipulega.  Erfiðlega gekk hjá Íslendingum að halda boltanum og sóknirnar urðu því ekki margar og hnitmiðaðar.  Hinsvegar fengu heimamenn ekki mörg færi, það besta á 81.  mínútu þegar þeir fengu vítaspyrnu.  Hún fór hinsvegar forgörðum, stöngin útaf, og okkar menn önduðu léttar.

Gott stig á galtömum leikvangi í Kænugarði en Úkraínumenn þurftu að leika fyrir luktum dyrum til að taka út refsingu frá UEFA.  Hinum tveimur leikjunum lyktaði einnig með jafntefli og, það sem meira er, báðir enduðu með markatölunni 1 - 1.  Króatía og Tyrkland gerðu jafntefli, sömuleiðis fyrir tómum velli í Zagreb.  Þá gerðu Finnland og Kósóvó einnig jafntefli í fyrsta mótsleik Kósóvó.

Næsti leikur Íslands í undankeppninni er á heimavelli gegn Finnlandi og fer hann fram fimmtudaginn 6. október.  Þremur dögum síðar, sunnudaginn 9. október, tökum við á móti Tyrkjum.  Uppselt er á báða þessa leiki sem fram fara á Laugardalsvelli.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög