Landslið

A karla - Mögnuð endurkoma og sigur gegn Finnlandi

Ísland mætir Tyrklandi á sunndaginn

6.10.2016

Strákarnir okkar buðu upp á háspennuleik á Laugardalsvelli í kvöld í fyrsta heimaleik Íslands í undankeppni HM. Leikurinn var frábær skemmtun og þrátt fyrir að lenda undir í tvígang vann Ísland að lokum magnaðan 3-2 sigur á Laugardalsvelli.

Finnar komust yfir á 21. mínútu þegar Teemu Pukki skoraði fyrir gestina en Ísland jafnaði metin á 37. mínútu. Það var varnarjaxlinn Kári Árnason sem skoraði jöfnunarmarkið. Það tók finnska liðið samt ekki langan tíma að komast aftur yfir en á 39. mínútu skoraði Robin Lod laglegt mark og Finnar leiddu 2-1 í hálfleik. 

Ísland fékk vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks en Gylfi Þór Sigurðsson skaut föstu skoti í þverslánna. Það var svo boðið upp á æsilegar lokamínútur í leiknum. Ísland jafnaði metin á 90. mínútu þegar Alfreð Finnbogason kom boltanum í mark Finna og á 96. mínútu skoraði Ísland svo sigurmarkið í leiknum. Boltinn kom inn í vítateiginn og eftir mikið krafs náði Ragnar Sigurðsson að skófla boltanum yfir marklínuna. Stuttu síðar blés dómarinn leikinn af og íslenskur 3-2 sigur staðreynd.

Magnaður sigur gegn sterku liði Finna en það er stutt stórra högga á milli og næst eru það Tyrkir sem mæta á Laugardalsvöllinn á sunnudaginn. 

Áfram Ísland!
Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög