Landslið

A kvenna - Skemmtileg heimsókn í skóla í Chongqing

Yfir 1000 krakkar tóku á móti landsliðskonum

21.10.2016

Leikmönnum úr kvennalandsliðinu var boðið að heimsækja grunnskóla í Chongqing í dag og satt að segja átti enginn von á því sem tók við leikmönnum. Á skólalóðinu voru yfir 1000 krakkar með íslenska og kínverska fána og mætti halda að sjálfur Justin Bieber væri mættur á svæðið, slíkur var æsingurinn. 

Dóra María Lárusdóttir, Guðbjörg Gunnarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir heimsóttu skólann ásamt starfsfólki KSÍ og fengu allir blóm við komuna. Síðan var gengið á gervigrasvöll skólans þar sem lið skólans var kynnt og í ræðuhöldum var meðal annars talað um að mikið væri lagt upp úr því að hafa öflugt fótboltalið í skólanum. Stelpurnar okkar spiluðu svo við krakkana og sýndu kínversku ungmennin flotta takta á vellinum. Eftir leikinn voru teknar ótal myndir og eiginhandaráritanir gefnar en á stundum ætlaði allt um koll að keyra sökum æsings krakkana. 

Allir fengu þó að lokum mynd og áritun og þökkuðu krakkarnir fyrir sig með því að gefa öllum myndir sem þau sjálf höfðu gert. 

Þessi heimsókn var hreint út sagt mögnuð en sjón er sögu ríkari og það má finna myndasafn frá heimsókninni á Facebook-síðu KSÍ. 

Takk fyrir okkur - Xièxiè!
Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög