Landslið

A kvenna - Sigur á Kína í lokaleiknum á Algarve-mótinu

Ísland hafnaði í 9.sæti á Algarve-mótinu

8.3.2017

Stelpurnar okkar unnu góðan 2-1 sigur á Kína í lokaleik Algarve-mótsins. Ísland hafnaði því í 9. sæti mótsins. Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, gerði margar breytingar milli leikja og lék liðið mismunandi leikkerfi sem verða mögulega notuð á EM í sumar.

Fyrra mark Íslands kom á 9. mínútu en það var Mál­fríður Erna Sig­urðardótt­ir sem náði góðu skoti að marki sem fór í Sig­ríði Láru Garðars­dótt­ur og þaðan í netið. Wang Shans­h­an jafnaði metin á 36. mínútu eftir mistök hjá íslenska liðinu og var staðan 1-1 í hálfleik.

Íslenska liðið hóf seinni hálfleik af miklum krafti og á 48. mínútu komst Ísland yfir en markið kom eftir hornspyrnu. Margrét Lára tók hornspyrnuna þar sem boltinn barst að lokum á Mál­fríðu Ernu sem skoraði með laglegu skoti. 

Kínverska liðið komst nálægt því að jafna á 77. mínútu en boltinn fór þá í stöng íslenska liðsins. Elín Metta Jensen og Sara Björk Gunnarsdóttir fengu undir lok leiksins góð færi til að auka á forskot íslenska liðsins en þær höfðu ekki erindi sem erfiði.

Það er margt jákvætt að taka úr leikjum Íslands á mótinu en baráttan var sannarlega til staðar og margt sem má byggja á fyrir komandi verkefni og auðvitað EM í Hollandi í sumar.

Ísland vann einn sigur á mótinu, gerði tvö jafntefli en tapaði einum leik. 

Enn er hægt að kaupa miða á svæðum íslenskra stuðningsmanna á EM í Hollandi en við hvetjum alla að fara á miði.is og tryggja sér miða í tíma. Miðasala á vegum KSÍ lýkur þann 15. mars.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög