Landslið

A karla – Landsliðið komið til Albaníu

Undirbúningur hefur gengið vel

22.3.2017

A landslið karla mætti til Albaníu í dag eftir þriggja daga dvöl í Parma á Ítalíu. Flogið var til Tirana og ekið þaðan til Shkoder þar sem leikurinn gegn Kósóvó mun fara fram á föstudag. 

Undirbúningurinn í Parma gekk að óskum og eru þjálfarar liðsins ánægðir með frammistöðu leikmanna til þessa. Eins og eftir var tekið ákváðu landsliðsmenn að hjálpa til við að vekja athygli á alþjóðadegi Downs heilkennis og með góðri aðstoð frá Errea gátu þeir klæðst skrautlegum sokkum sem voru einkenni dagsins. Ólafur Ingi Skúlason sem átti frumkvæði að þessari skemmtilegu uppákomu hópsins var mjög þakklátur liðsfélögum sínum fyrir að taka þátt í verkefninu með þessum hætti. 

Nú þegar hefur landsliðið fundað einu sinni í Shkoder þar sem Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, hélt áfram að fara yfir verkefnið sem framundan er. Á morgun (fimmtudag) mun landsliðið svo æfa á Loro Borici leikvangnum ásamt því að haldið verður áfram að fara yfir leikskipulag liðsins. 

Leikurinn gegn Kósóvó verður svo á föstudag og hefst hann kl. 19:45 (ísl. tíma) í beinni útsendingu á RÚV.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög