Landslið

A kvenna – Ísland mætir Hollandi í dag

Liðið dvelur nú á sama hóteli og það verður á á EM í sumar

9.4.2017

A landslið kvenna er nú í Hollandi þar sem liðið dvelur á sama hóteli og það verður á þegar lokakeppni EM fer fram í sumar. Dvölin á hótelinu núna er einstakt tækifæri til að slípa til það sem í ólagi er og tryggja þannig að allt verði í góðu standi þegar stóra stundin rennur upp þann 14. júlí nk. en þá heldur liðið til Hollands. 

„Það er búin að vera töluverð eftirvænting fyrir því að koma hingað.“ Segir Ásmundur Haraldsson aðstoðarþjálfari liðsins. „Þetta er stórglæsilegt hótel og allt svæðið í kring. Það eru náttúrulega alltaf einhverjir hlutir sem þarf að laga en þess vegna erum við hér núna, þetta er svona generalprufa fyrir sumarið þannig að það verður allt tipp topp þegar við komum hérna í sumar.“ segir Ásmundur jafnframt. 

Þjálfarateymi íslenska liðsins sá vináttuleik Hollands og Frakklands síðasta föstudag en bæði þessi lið eru mótherjar okkar í leikjum sem framundan eru. Íslenska liðið mætir Hollendingum í vináttuleik á þriðjudag í næstu viku og fyrsti leikur Íslands á lokamótinu í sumar verður gegn Frökkum þann 18. júlí. Umgjörðin í kringum leikinn á föstudaginn var mjög skemmtileg og augljóst að Hollendingar leggja sig fram um að gera kvennaknattspyrnu hátt undir höfði. 

Aðspurður um leikinn á föstudag segir Ásmundur að Frakkarnir hafi verið aðeins sterkari „...en Hollendingarnir eru með mjög gott lið og hefðu með smá heppni getað nælt sér í jafntefli eða jafnvel sigur í leiknum.“ 

Leikur Hollands og Íslands, sem fer fram á Vijverberg leikvangnum í Doetinchem, hefst kl. 17:00 og verður sýndur beint á RÚV. 

Viðtal við Ásmund Haraldsson


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög