Landslið

EM 2017 - Grátlegt 1-0 tap fyrir Frakklandi

Frábær frammistaða hjá Íslandi

18.7.2017

Ísland tapaði í kvöld 1-0 fyrir Frakklandi í fyrsta leik liðanna á EM í Hollandi. Það var Eugenie Le Sommer sem skoraði sigurmark Frakka af vítapunktinum í enda seinni hálfleiks. Grátlegt tap staðreynd. 

Það var ljóst frá byrjun að verkefni dagsins væri gríðarstórt, enda Frakkland í þriðja sæti á heimslista FIFA. Það var hins vegar ekki að sjá í byrjun leiks að annað liðið væri eitt þeirra sem talið er hvað líklegast til afreka í Hollandi. Ísland gaf ekki tommu eftir og var síst lakari aðilinn í fyrri hálfleik. Bæði lið sköpuðu sér færi í hálfleiknum, en það var Dagný Brynjarsdóttir sem átti besta færi Íslands þegar hún skallaði hornspyrnu Hallberu Gísladóttur rétt yfir mark Frakka. Í lok hálfleiksins féll síðan Fanndís við í vítateig Frakka en ekkert dæmt, en það hefði svo sannarlega mátt dæma víti þar. Markalaust í hálfleik. 

Frakkland kom gríðarlega ákveðið út í seinni hálfleikinn og tók yfirhöndina strax frá byrjun og fyrstu 10 mínútur hans einkenndust af mikilli pressu þeirra á íslenska markið. Íslenska vörnin stóð þá pressu hins vegar frábærlega af sér og var liðið ekki langt frá því að taka forskotið fljótlega eftir það. Sif Atladóttir átti þá langt innkast sem Dagný flikkaði áfram á Gunnhildi Yrsu, en hún náði ekki að stýra boltanum á markið. Frakkar héldu áfram að vera sterkari aðilinn, þó Ísland væri alltaf hættulegt þegar þær komust á boltann. 

Frakkland voru hins vegar ekki langt frá því að komast yfir þegar um korter var eftir af leiknum. Wendie Renard átti þá fastan skalla eftir hornspyrnu sem endaði í þverslá íslenska marksins. Þar mátti ekki miklu muna. Það voru svo aðeins fimm mínútur eftir af venjulegum leiktíma þegar Frakkland fékk víti, fremur ódýrt, þegar Elín Metta var dæmd brotleg. Eugenie Le Sommer steig á punktinn og senti Guðbjörgu í vitlaust horn. 1-0 og urðu það lokatölur leiksins.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög