Landslið

U21 karla - 2-3 tap í fyrsta leik gegn Albaníu

4.9.2017

U21 árs landslið karla tapaði fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2019 í dag, 2-3 gegn Albaníu.

Leikurinn byrjaði nokkuð rólega og skiptust liðin á að halda boltanum. 

Albanir fóru síðan fljótlega að vera meira með boltann, en þó án þess að skapa sér nokkur færi. Það var hins vegar Ísland sem fékk fyrsta færi leiksins. Albert Guðmundsson fékk þá boltann rétt fyrir utan teig og vippaði honum í gegn á Óttar Magnús Karlsson, en markvörður Albana varði skot hans naumlega. 

Albanir héldu áfram að vera meira með boltann, en Ísland beitti skyndisóknum. Á 29. mínútu komust þeir í gegn utarlega í teignum, náðu skoti á markið en Sindri Kristinn Ólafsson varði vel. 

Leikurinn róaðist aðeins eftir það og Ísland náði betur að halda boltanum innan liðsins. Þegar aðeins mínúta var eftir af hálfleiknum átti Viktor Karl Einarsson flottan sprett upp kantinn, lagði hann út á Albert sem átti gott skot að marki sem markvörðurinn varði vel í horn.

Fyrsta mark leiksins leit svo dagsins ljós eftir hornspyrnuna. Eftir mikinn darraðadans inn á teignum náði Axel Óskar Andrésson að pota boltanum inn fyrir línuna. 1-0 fyrir Ísland. 

Liðinu tókst hins vegar ekki að halda forystunni lengi. Albanir áttu góða sendingu inn fyrir íslensku vörnina, Kristal Abazaj komst einn í gegn og náði að koma boltanum framhjá Sindra í mark Íslands. Staðan 1-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri, liðin skiptust á að halda boltanum innan síns liðs, en þó án þess að skapa sér mörg færi. 

Ísland gerði sína fyrstu breytingu eftir 62 mínútur en þá kom Arnór Gauti Ragnarsson inná og Óttar Magnús Karlsson fór útaf.

Tveimur mínútum síðar komust Albanir aftur inn fyrir vörn Íslands og tókst Kristal Abazaj að skora sitt annað mark í leiknum. 

Það tók hins vegar Ísland aðeins sex mínútur að svara fyrir sig. Brotið var á Viktori Karli Einarssyni á miðjum vellinum. Albert tók aukaspyrnuna, setti hana á fjærstöng þar sem Viktor var og skallaði hann boltann yfir markvörðinn og í fjærhornið.

Önnur skipting Íslands var á 70 mínútu en þá kom Jón Dagur Þorsteinsson inná fyrir Ásgeir Sigurgeirsson.

Albanía skoraði síðan sigurmarkið á 74 mínútu, en Fiorin Durmishaj skoraði eftir góða fyrirgjöf frá Maloku.

Svekkjandi 2-3 tap staðreynd hjá Íslandi. Það var margt jákvætt sem hægt er að taka úr leiknum, en þetta er að sjálfsögðu aðeins fyrsti leikur liðsins í undankeppni EM 2019.

Næstu leikir liðsins fara fram í október. Liðið leikur þá tvo útileiki, 5. október í Slóvakíu og 10. október í Albaníu.

Áfram ÍslandMót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög