Landslið

U21 karla - Frábær 3-2 sigur gegn Eistlandi ytra

14.11.2017

U21 ára lið karla vann frábæran 3-2 sigur á Eistlandi í dag eftir að hafa lent 2-0 undir í upphafi seinni hálfleiks, en leikið var ytra.

Íslenska liðið var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik og skapaði sér fjölda færa. Albert Guðmundsson átti gott skot sem markvörður Eistlands varði vel, en Samúel Kári Friðjónsson komst einnig í mjög gott færi seinna í hálfleiknum.

Það var því gegn gangi leiksins þegar Eistland skoraði fyrsta mark leiksins rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Góð fyrirgjöf þeirra fann Vlasiy Sinyavskiy á fjærstöng og setti hann boltann í netið. 

Þegar flautað var til hálfleiks hafði Ísland átt 13 marktilraunir gegn tveimur hjá heimamönnum.

Eistland byrjaði seinni hálfleikinn vel og tókst að bæta við marki eftir aðeins sex mínútur. Þeir fengu þá aukaspyrnu rétt fyrir utan teig Íslands og Michael Lilander setti hann frábærlega yfir vegginn og í hornið.

Það tók Ísland hins vegar aðeins fimm mínútur að svara fyrir sig, en Albert Guðmundsson skoraði þá með góðu skoti rétt fyrir utan teig. Stuttu eftir markið var Albert nálægt því að jafna leikinn, en honum tókst ekki að koma boltanum á markið.

Ísland var mun betri aðilinn eftir markið og skapaði sér töluvert af færum, en á 74. mínútu skoraði Hans Viktor Guðmundsson og jafnaði leikinn eftir stoðsendingu frá Jóni Degi Þorsteinssyni.

Aðeins sex mínútum síðar komst Ísland yfir. Albert tók þá aukspyrnu úti á vinstri kantinum, Axel Óskar Andrésson skallaði boltann fyrir mark Eistlands þar sem Óttar Magnús Karlsson var mættur og kom boltanum yfir línuna. Ísland komið yfir eftir að hafa lent 2-0 undir í byrjun seinni hálfleiks.

Heimamenn sóttu aðeins meira eftir markið, en þó án þess að skapa sér opin marktækifæri og sigldu íslensku strákarnir sigrinum í höfn örugglega.

Frábær karaktersigur staðreynd hjá Íslandi og er liðið nú komið með sjö stig eftir fimm leiki.

Áfram Ísland!


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög