Landslið

A karla - 6-0 sigur gegn Indónesíu

11.1.2018

Ísland vann góðan 6-0 sigur á Indónesíu í dag, en leikið var á Maguwoharjo vellinum í Yogyakarta. Mörk Íslands skoruðu þeir Andri Rúnar Bjarnason, Kristján Flóki Finnbogason, Óttar Magnús Karlsson, Tryggvi Hrafn Haraldsson, Hjörtur Hermannsson og Hólmar Örn Eyjólfsson. 

Ísland var mun betri aðilinn í leiknum og tók stjórn á honum strax frá byrjun. Strax á 13. mínútu fékk liðið víti þegar brotið var á Alberti Guðmundssyni. Andri Rúnar steig á punktinn en markvörður Indónesíu varði frábærlega frá honum. 

Strákarnir léku boltanum vel á milli sín, sköpuðu sér færi en tókst ekki að koma boltanum í netið. Það var svo á 31. mínútu sem fyrsta markið leit dagsins ljós. Albert Guðmundsson átti þá góða fyrirgjöf, varnarmaður Indónesíu misreiknaði boltann eitthvað, setti hann á markið sem markmaður þeirra varði vel. Andri Rúnar tók hins vegar frákastið og setti hann með bakfallsspyrnu í netið. 

Ísland hélt áfram að skapa sér færi, en tókst ekki að koma boltanum í markið og staðan því 1-0 í hálfleik. 

Kristján Flóki Finnbogason og Anton Ari Einarsson komu inn fyrir Andra Rúnar Bjarnason og Frederik Schram í hálfleiknum. 

Seinni hálfleikurinn byrjaði frábærlega fyrir Ísland, en Kristján Flóki Finnbogason skoraði strax eftir um mínútu leik eftir frábæra aukspyrnu Arnórs Ingva. Leikurinn var síðan stuttu síðar stöðvaður tímabundið, enda var gríðarlega mikil rigning og hafði hún mikil áhrif á völlinn. 

Eftir að leikurinn fór af stað aftur tók Ísland öll völd á vellinum. Á 63. mínútu kom Óttar Magnús Karlsson inn á fyrir Mikael Neville Anderson og fimm mínútum síðar voru það Tryggvi Hrafn Haraldsson og Hilmar Árni Halldórsson sem komu inn fyrir Ólaf Inga Skúlason og Arnór Ingva Traustason. 

Það tók Óttar Magnús ekki nema þrjár mínútur að komast á blað og hið sama má segja um Tryggva Hrafn. Staðan því orðin 4-0 fyrir Ísland þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum. 

Ísland bætti við tveimur mörkum með mínútu millibili þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum, en þar voru að verki Hjörtur Hermannsson og Hólmar Örn Eyjólfsson. Staðan orðin 6-0.

Ekkert meira markvert gerðist í leiknum eftir þetta og góður 6-0 sigur Íslands því staðreynd.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög