Landslið

Stærsti styrktarsamningur íþróttahreyfingarinnar undirritaður

Icelandair áfram aðalstyrktaraðili ÍSÍ og GSÍ, HSÍ, ÍF, KKÍ og KSÍ.

23.1.2018

Í gær endurnýjaði Icelandair samning um að vera aðalstyrktaraðili Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og fimm sérsambanda innan þess, þ.e. GSÍ, HSÍ, ÍF, KKÍ og KSÍ. Þessir styrktarsamningar milli flugfélagsins og ÍSÍ eru þeir umfangsmestu í sögu íþróttahreyfingarinnar. 

Samningurinn felur í sér víðtækt samstarf Icelandair og þessara íþróttasambanda. Meðal annars getur landsliðsfólk á vegum ÍSÍ í öllum aldursflokkum kvenna og karla nýtt sér áætlunarflug Icelandair til yfir 50 áfangastaða í Norður-Ameríku og Evrópu. 

„Samstarf ÍSÍ og Icelandair hefur verið afar farsælt í áratugi og erum við hæst ánægð með að hafa nú tryggt áframhaldandi samstarf fram yfir Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020. Stuðningur Icelandair við íþróttahópa ÍSÍ og landslið sérsambanda á ferðalögum til og frá keppni hefur verið ómetanlegur, ekki síst í kringum stór alþjóðleg mót og Ólympíuleika. Víðtækt leiðakerfi Icelandair gerir okkur auðvelt að komast á hagkvæman og öruggan hátt á milli staða“, segir Lárus L. Blöndal. 

„Við hjá Icelandair erum mjög stolt að halda ánægjulegu samstarfi við ÍSÍ áfram. Íslendingar eiga afreksfólk á heimsmælikvarða í nánast öllum greinum og það er okkur sönn ánægja að geta staðfest áframhaldandi stuðning við margar af fyrirmyndum Íslands. Íþróttir eru mikill drifkraftur ferðalaga um allan heim, ekki síst í ár þegar margir munu leggja leið sína til Rússlands eða fylgjast með okkar bestu kylfingum,“ segir Björgólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Icelandair. 

Þúsundir einstaklinga ferðast árlega um allan heim með Icelandair til að upplifa íþróttatengda viðburði. „Ekki er hægt að hugsa sér betri fulltrúa Íslands en íþróttafólkið okkar. Þau vekja athygli úti í heimi og eru frábær kynning á landinu,“ segir Björgólfur. 

Til að fagna farsælu samstarfi enduðu forystumenn Icelandair og íþróttasambandanna samkomuna á því að renna sér niður öryggisrennu en fundurinn átti sér stað í þjálfunarsetri Icelandair í Hafnarfirði.
Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög