Landslið

U17 kvenna - Frábær 4-0 sigur gegn Skotlandi

Liðin mætast aftur á þriðjudaginn klukkan 12:00 í Kórnum

4.2.2018

U17 ára lið kvenna vann í dag góðan 4-0 sigur á Skotlandi, en liðin mættust í Kórnum. Ísland stjórnaði leiknum frá byrjun og var frammistaða liðsins mjög góð.

Íslensku stelpurnar byrjuðu leikinn frábærlega og tóku öll völdin á vellinum strax í byrjun. Það tók þær ekki nema fjórar mínútur að komast yfir, en þar var að verki Karólína Lea Vilhjálmsdóttir eftir góða fyrirgjöf. 

Ísland hélt áfram að sækja, þær héldu boltanum vel og skoska liðið réð ekkert við þær. Á 18. mínútu komst Helena Ósk Hálfdánardóttir ein í gegn eftir góða stungusendingu, fór framhjá markverði Skota sem braut á henni. Karólína Lea steig á vítapunktinn og setti boltann í markið af öryggi. 

Það var svo Helena Ósk sem bætti við þriðja marki Íslands rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og staðan því 3-0 fyrir Íslandi þegar dómari leiksins flautaði til hálfleiks.

Ísland hélt áfram að vera betri aðilinn í seinni hálfleik og var Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir nálægt því að skora fjórða mark Íslands á 51. mínútu. Markvörður Skota varði hins vegar mjög vel frá henni. Aðeins mínútu síðar var það Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving í marki Íslands sem varði vel.

Á 53. mínútu leiksins gerði Ísland þrefalda skiptingu. Þá komu inn á Barbára Sól Gísladóttir, Ída Marín Hermannsdóttir og Jana Sól Valdimarsdóttir fyrir Karólínu Jack, Helenu Ósk Hálfdánardóttur og Inga Laufey Ágústsdóttur.

Eftir skiptinguna hélt Ísland áfram að skapa sér álitleg færi. Á 60. mínútu átti Áslaug Munda góðan skalla en markvörður Skota varði hann mjög vel.

Tíu mínútum síðar var brotið á Clöru Sigurðardóttur innan vítateigs og dæmt víti. Clara steig sjálf á vítapunktinn og skoraði af öryggi. 4-0. Strax eftir markið gerði Ísland aftur þrefalda skiptingu. Þær Eva Karen Sigurdórsdóttir, Sandra María Sævarsdóttir og Diljá Ýr Zomers komu inn á fyrir Clöru Sigurðardóttur, Evu Rut Ásþórsdóttur og Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur.

Á 78 mínútu komu Andrea Marý Sigurjónsdóttir og Jelena Tinna Kujundzic fyrir Katrínu Ósk Sveinbjörnsdóttur og Írisi Unu Þórðardóttur.

Frábær 4-0 sigur staðreynd, en liðin mætast aftur á þriðjudaginn kemur. Sá leikur fer einnig fram í Kórnum og hefst klukkan 12:00.

Byrjunarlið Íslands: 

Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving (M) 

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir 

Íris Una Þórðardóttir 

Inga Laufey Ágústsdóttir 

Katrín Ósk Sveinbjörnsdóttir 

Eva Rut Ásþórsdóttir 

Helena Ósk Hálfdánardóttir

Clara Sigurðardóttir 

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir 

Katla María Þórðardóttir 

Karólína JackMót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög