Landslið
Við erum öll í íslenska landsliðinu!

Eins marks tap á Hampden Park

Dauðafæri nýttust ekki á lokamínútunum

1.4.2009

Skotar lögðu Íslendinga í kvöld í undankeppni fyrir HM 2010 en leikið var á Hampden Park.  Lokatölur urðu 2 - 1 fyrir heimamenn eftir að staðan hafði verið 1 - 0 í hálfleik.  Indriði Sigurðsson skoraði mark Íslendinga þegar hann jafnaði metin á 54. mínútu.

Skotar byrjuðu leikinn betur og fyrstu 15 mínúturnar héldu þeir boltanum innan liðsins á meðan íslenska liðið beið átekta. Þegar leið á leikinn fóru Íslendingar að færa sig framar en undirtökin voru Skota. Lítið var um opin marktækifæri en á 39. mínútu brutu Skotar ísinn með laglegu marki. Heimamenn höfðu því eins marks forystu þegar að austurríski dómari leiksins flautaði til leikhlés.

Skotar voru sterkari fyrstu mínútur síðari hálfleiks en Íslendingar voru nú fljótir að vinna sig inn leikinn. Strákarnir jöfnuðu svo á 54. mínútu með marki frá Indriða Sigurðssyni. Fyrirliðinn Hermann Hreiðarsson vann þá boltann, kom boltanum á Pálma Pálmason sem að átti þrumuskot í stöngina. Boltinn hrökk út í teig og þar var Indriði Sigurðsson sem að skoraði með fínu skoti úr miðjum vítateignum.

Leikurinn var svo jafn eftir þetta en Skotar komust yfir aftur á 65. mínútu með marki eftir hornspyrnu. Ekki var mikið um opin færi fyrr en á síðustu mínútum leiksins sem voru æsispennandi. Íslendingar sóttu án afláts og fengu nokkur upplögð marktækifæri til þess að jafna metin en lukkudísirnar voru á bandi heimamanna og þeir fögnuðu sigri í leikslok.

Skotar eru því komnir í annað sæti riðilsins en Íslendingar eru í því þriðja. Hollendingar, sem unnu Makedóníu með fjórum mörkum gegn engu í kvöld, eru í efsta sæti riðilsins með fullt hús stiga eftir fimm leiki. Næsti leikur Íslendinga í undankeppninni verður gegn Hollandi hér á Laugardalsvellinum og fer sá leikur fram laugardaginn 6. júní.

Riðill Íslands


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög