Landslið
U21 landslið karla

U21 karla - Byrjunarliðið klárt í Magdeburg - Textalýsing

Fylgst með leiknum hér á síðunni

2.3.2010

Eyjólfur Sverrisson hefur tilkynnt byrjunarlið sitt er mætir Þjóðverjum í undankeppni EM.  Leikurinn hefst kl. 16:45 að íslenskum tíma og fer fram á MDCC vellinum í Magdeburg.

 

Byrjunarliðið:

Markvörður: Haraldur Björnsson

Hægri bakvörður: Skúli Jón Friðgeirsson

Vinstri bakvörður: Jósef Kristinn Jósefsson

Miðverðir: Hólmar Örn Eyjólfsson og Jón Guðni Fjóluson

Tengiliðir: Eggert Gunnþór Jónsson, Bjarni Þór Viðarsson fyrirliði og Birkir Bjarnason

Hægri kantur: Andrés Már Jóhannesson

Vinstri kantur: Jóhann Berg Guðmundsson

Framherji: Kolbeinn Sigþórsson

Varamenn eru Óskar Pétursson, Guðmundur Kristjánsson, Almarr Ormarsson, Kristinn Jónsson, Elfar Freyr Helgason og Alfreð Finnbogason.  Gylfi Þór Sigurðsson er ekki leifær vegna meiðsla

Fylgst verður með leiknum hér á síðunni með textalýsingu en leikurinn er einnig sýndur á þýsku sjónvarpsstöðinni DSF.

Þýskaland - Ísland

Liðið er komið á leikvöllinn og dugði ekkert minna en lögreglufylgd fyrir rútu íslenska liðsins.  Enn er rúmur klukkutími í leik og hafa liðin ekki hafið upphitun ennþá.

MCDD völlurinn sem leikið er á tekur rúmlega 27.000 manns í sæti.  Ekki voru heimamenn vissir um hvað margir áhorfendur muni mæta á þennan leik.  Það er frekar kalt í veðri, um fjögurra stiga hiti og vindur, hægt að kalla þetta "ákveðna golu"

Knattspyrnulið Magdeburgar leikur heimaleiki sína á þessum velli en liðið leikur í fjórðu efstu deild en hún skiptist í fjóra riðla.  Liðið gerði hinsvegar góða hluti hér á árum áður þegar Þýskaland skiptist í austur og vestur.  Var þetta eitt af stóru liðunum í Austur Þýskalandi og árið 1974 vann Magdeburg Evrópukeppni bikarhafa þegar liðið lagði AC Milan í úrslitaleik.

Kolbeinn Sigþórsson er fyrstur allra leikmanna út á völl og er byrjaður að hita upp undir vökulum augum Hjalta Kristjánssonar læknis.

Allir íslensku leikmennirnir eru komnir út á völl en aðeins markmenn þýska liðsins.  Vallarþulurinn er vel með á nótunum og kynnti íslensku leikmennina þegar þeir hlupu út á völl.  Umsvifalaust var svo skellt á laginu "Ice Ice Baby" með hinum vanmetna Vanilla Ice.  Skemmtilegt!!

Um 15 mínútur í leik og byrjunarlið Íslands er komið inn í klefa.

Það eru fjórir leikmenn frá Stuttgart í byrjunarliði Þjóðverja og tveir þeirra, Timo Gebhart og Sebastian Rudy, voru í byrjunarliði Stuttgart sem lék gegn Barcelona í Meistaradeildinni á dögunum.

Dómarakvartettinn kemur frá Grikklandi og heitir dómarinn Michael Koukoulakis.

Verið kynna liðin til leiks og allt að verða klárt, áhorfendur eru að týnast á völlinn.  Undirritaður kom auga á allavega einn íslenskan fána á pöllunum.

Liðin að ganga inn á völlinn og þjóðsöngvarnir eru leiknir.

Leikurinn er hafinn!!!

Heimamenn koma grimmir til leiks og á 2. mínútu kemur sending inn fyrir vörnina en Haraldur er á undan sóknarmanni Þjóðverja.

Góð sókn Íslands, Skúli Jón með góða fyrirgjöf og Birkir skallar í varnarmann og í horn.  Ekkert kemur úr hornspyrnunni.

Þjóðverjar fá aukaspyrnu um 2 metra frá hornfánanum, föst spyrna fyrir en Hólmar skallar frá.  Stuttu síðar kemst Þjóðverji inn í teig en máttlaust skot hans er langt framhjá.

Átta mínútur liðnar og lítur útfyrir hörkuleik.

1 - 0 Þýskaland

Timo Gebhart kemur Þjóðverjum yfir með skallamarki, fyrirgjöf frá vinstri og Gebhart var þar óvaldaður.

1 - 1  Kolbeinn Sigþórsson!!!

Strákarnir ekki lengi að svara, Birkir kemur boltanum inn á Kolbein sem að er ískaldur fyrir framan markið og rennir honum innanfótar í netið.  Markið kemur á 12. mínútu.

Birkir er mjög ógnandi á miðjunni og íslensku strákarnir óhræddir við að sækja.  Kolbeinn vinnur hornspyrnu, önnur hornspyrna Íslands í leiknum.

Þjóðverjar verjast horninu og geysast í sókn en Haraldur handsamar boltann örugglega.

Þjóðverjar reyna mikið að fara upp vinstri kantinn og leita mikið að Sidney Sam kantmanni.  Hann vinnur aukaspyrnu og eftir barning í teignum koma Þjóðverjar boltanum í netið en greinileg rangstæða á ferðinni.  1 - 1 eftir 24 mínútur.

Eggert við það að komast í skotfæri en Þjóðverjar bjarga.  Eggert stoppar svo sókn þeirra með "klóku" broti á vallarhelmingi Þjóðverja.

Leikurinn hefur róast eftir mjög hraða byrjun.  Þjóðverjar eru meira með botann en strákarnir verjast vel og skipulega.

Liðnar 30 mínútur af leiknum þegar Íslendingar fá aukaspyrnu í miðjuhringnum en markvörður Þjóðverja, handsamar boltann án vandkvæða.

Misskilningur í íslensku vörninni en Haraldur kemur út úr markinu og sparkar frá.  Boltinn kemur þó fljótlega inn í teig aftur og leikmaður Þjóðverja á skot yfir í ágætis færi.  Smá einbeitingarleysi í varnarleiknum þarna á ferðinni.

Dauðafæri Íslendinga, Bjarni fær boltann í markteig eftir klafs, hann nær ekki skoti en rennir boltanum á Birki sem er í frábæru færi en hittir boltann illa og boltinn fer framhjá.

Sóknarmaður Þjóðverja fellur, frekar óvænt, í teignum og áhorfendur vilja fá vítaspyrnu.  Undirritaður og gríski dómarinn erum hinsvegar sammála um að svo er ekki.  Fimm mínútur eftir af fyrri hálfleik.

Dæmd hönd á Íslendinga og Þjóðverjar reyna skot beint úr aukaspyrnunni af um 35 metra færi.  Haraldur grípur boltann auðveldlega.

Þjóðverjar vinna boltann á miðsvæðinu og komast í gott færi en Hólmar kemst fyrir boltann, hefði geta verið hættulegt.  Stuttu seinna komast Þjóðverjar upp vinstra megin en skot þeirra rétt framhjá.  Einni mínútu bætt við.

Fyrsta áminningin í leiknum kemur í uppbótartíma og er það fyrirliði Þjóðverja, Daniel Schwaab, sem fær hana fyrir brot á Birki.  Um leið og aukaspyrnan er tekin flautar gríski dómarinn til leikhlés.  Leikurinn í járnum þó Þjóðverjar séu meira með boltann.  Besta færið, fyrir utan mörkin, var hinsvegar Íslendinga.  Status Quo hljómar um leikvanginn, á vel við, staðan jöfn í hálfleik 1 - 1.

Seinni hálfleikur hafinn, lið Íslands óbreytt en Þjóðverjar gera eina breytingu á liði sínu.  Sóknarmaður frá St. Pauli, Richard Sukuta-Pasu er kominn inná, stór og sterklegur framherji þar á ferðinni.

2 - 1 Þýskaland

Stórsókn Þjóðverja endar með marki, Julian Schieber skorar eftir harðan aðgang að marki íslenska liðsins.  Haraldur varði fyrst gott skot Þjóðverja en ekki tókst að koma boltanum frá markinu.  Í aðdraganda marksins fékk Eggert Gunnþór að líta gult spjald.

Eitthvað ólag á nettengingunni en það lagast vonandi.  Almarr Ormarsson er kominn inná í stað Andrésar og fer beint á hægri kantinn.

Markið virðist hafa slegið íslenska liðið aðeins út af laginu og Þjóðverjar eru sterkari í augnablikinu.  En það er mikið eftir!

Varamaðurinn Pasu á skot rétt framhjá marki Íslendinga.  Eyjólfur stappar stálinu í sína stráka.  Brotið á Jóhanni Berg við hliðarlínu á vallarhelmingi Þjóðverja.  Eftir barning í teignum á Almarr ágætis skot en framhjá, þetta er meira í áttina!!

Þjóðverjar fá hornspyrnu en íslenska vörnin stendur vaktina og kemur boltanum frá.  Nú er verið að huga að Hólmari en hann stendur upp og heldur áfram leik.

Þjóðverjar eru ógnandi þessar mínúturnar, sérstaklega varamaðurinn Pasu og kantmaðurinn Sidney Sam sem er reyndar kominn á hægri kantinn núna.

Jóhann Berg á góðan sprett upp völlinn en skot hans hafnar í varnarmanni og afturfyrir.  Í hornspyrnunni er brotið á markmanni Þjóðverja.

Heimamenn með hættulega sókn og Sidney Sam á skot rétt framhjá.

Dauðafæri Íslendinga, Bjarni Þór skallar aukaspyrnu Jóhanns fyrir markið og þar er Hólmar á auðum sjó en lyftir boltanum yfir markið.  Heimamenn biðu eftir flaggi aðstoðardómarans um merki um rangstöðuen það kom aldrei.  Tæpar 20 mínútur eftir af leiknum.

Íslendingar tapa boltanum á sínum vallahelmingi og Sidney Sam á skot sem Haraldur ver vel.  Hólmar kemur boltanum svo frá áður en að sóknarmaður Þjóðverja kemst til boltans.

2 - 2 Bjarni Þór Viðarsson!!!

Frábær sókn, Jóhann með fyrirgjöf sem að Kolbeinn tekur frábærlega á móti og kemur boltanum til Bjarna.  Hann skýtur boltanum í stöngina og inn.  Boltinn var óþarflega lengi að fara inn fyrir marklínuna fyrir minn smekk!  Glæsilegt!!

Markið kemur á 75. mínútu, þetta verða spennandi lokamínútur.

Það eru 7 mínútur eftir af venjulegum leiktíma og nettengingin á erfitt með sig af spenningi.  Guðmundur Kristjánsson kemur inná fyrir Birki Bjarnason og Íslendingar eiga aukaspyrnu.  Jóhann Berg gefur fyrir og Bjarni skallar í þverslánna og niður.  Aðstoðardómarinn gaf hinsvegar merki um rangstöðu svo markið hefði ekki talið.  Sebastian Rudy fær áminningu fyrir brot og Þjóðverjar gera tvöfalda skiptingu.

Haraldur kemur langt ú í teiginn og grípur aukaspyrnu Þjóðverja örugglega.  Jóhann Berg fer illa með varnarmenn Þjóðverja og á þrumuskot framhjá.  Strákarnir eru alls ekki hættir!

Púff!! Sidney Sam sleppur í gegn en Haraldur nær að verja og Hólmar stoppar boltann nánast á marklínu.

Ótrúleg björgun!!  Haraldur missir af boltanum og sóknarmaður Þjóðverja á skot sem Hólmar nær að bjarga ævintýralega á línunni og þaðan í stöngina.  Mögnuð tilþrif!!

Önnur ævintýraleg björgun, Bjarni Þór sópar boltanum af marklínunni.  Þjóðverjar vilja meina að boltinn hafi verið inni og fá gult spjald fyrir mótmæli.  Þremur mínútum bætt við og Elfar Helgason kemur inn á fyrir Jóhann Berg Guðmundsson í uppbótartíma.  Gleymdist að geta um gult spjald á Guðmund Kristjánsson sem hann fékk fyrir hraustlegt brot.

Leik lokið, jafntefli 2 - 2.  Sannarlega frábær úrslit hjá strákunum.  Þetta stóð samt tæpt í lokin, ótrúlegar marklínubjarganir í tvö skipti.

 

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög