Landslið
A landslið kvenna

Öruggur þriggja marka sigur í leðjunni

Ísland hafnaði í 9. sæti á Algarve-mótinu 2010

3.3.2010

Ísland vann öruggan þriggja marka sigur á Portúgal í leik um 9.-10. sætið á Algarve-mótinu, en liðin mættust á rennblautum Estadio Algarve í dag, miðvikudag.  Mörk Íslands skoruðu þær Ólína G. Viðarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir og Dóra María Lárusdóttir, og komu öll mörkin í seinni hálfleik.

Fylgst var með leiknum í textalýsingu, sem sjá má hér að neðan.

Íslenska liðið

Textalýsing frá leiknum

Nú styttist í leikinn, sem fram fer á aðalleikvangi svæðisins, Estadio Algarve, en það er sami leikvangur og úrslitaleikurinn fer fram á síðar í dag.  Mikið hefur rignt á Algarve síðustu daga og vellirnir hafa verið blautir og þungir, og æfingavellir liðanna minna helst á keppnisvöll í mýrarbolta.

Leikurinn er hafinn, en erfiðlega gengur að ná símasambandi við fulltrúa ksi.is á leiknum.  Reynum áfram.

Samband komið á!

Fyrstu 20 mín hafa einkennst af miðjumoði, enda er völlurinn rennandi blautur, pollar og leðja.  Ísland hefur átt tvö færi og var Hólmfríður Magnúsdóttir þar að verki í bæði skiptin, í annað skiptið var hún reyndar dæmd rangstæð.  Tvö horn hafa einnig fengist en ekki skapað færi.  Ísland er mun sterkara það sem af er leiknum og vonandi bara tímaspursmál hvenær fyrsta markið kemur.

Miðað við lýsingar á ástandi vallarins verður erfitt fyrir liðin sem leika til úrslita, Bandaríkin og Þýskaland, að sýna lipra takta á þessum velli, en úrslitaleikurinn fer fram kl. 16:00.  Vallarstarfsmenn fá einn klukkutíma eftir leik Íslands og Portúgal til að tjasla vellinum saman.

Leikurinn hefur verið tíðindalítill í fyrri hálfleik, mest miðjumoð, enda eiga leikmenn erfitt með að fóta sig á blautum og hálum vellinum, pollar eru að breytast í drullu. 

Helstu atvik leiksins eru hálffæri sem hafa komið upp úr hornspyrnum og aukaspyrnum hjá báðum liðum, án þess þó að um dauðafæri sé að ræða.  Katrín Jónsdóttir átti hættulegasta færi Íslands, sem var skalli eftir hornspyrnu, og Þóra B. Helgadóttir varði vel í besta færi Portúgalanna.

Hálfleikur.  Markalaust.

0-1 fyrir Ísland! Mark á 49. mín.  Þóra markvörður tók aukaspyrnu á vallarhelmingi Íslands og spyrnti knettinum innfyrir portúgölsku vörnina, þar sem Hólmfríður kom aðvífandi, stakk sér fram fyrir varnarmann og skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir er komin inn á fyrir Margréti Láru Viðarsdóttur.

0-2 fyrir Ísland!  Mark á 63. mínútu.  Ólína komst ein í gegn eftir fallegt þríhyrningsspil við Hólmfríði og skoraði með öruggri spyrnu.

Leikurinn hefur róast að nýju og enn fer mesta fjörið fram á miðjum vellinum, þar sem leikmenn reyna að hemja knöttinn eins og hægt er á rennblautum vellinum.  Fátt markvert að gerast þessar síðustu mínútur. 

Leikurinn er langt kominn og mikil rólegheit í gangi.  Völlurinn er sem fyrr segir afar erfiður yfirferðar þannig að líklegt er að nokkuð hafi dregið af leikmönnum.

Erna og Ólína koma af velli á 69. mín og inn okm þær Dóra María Lárusdóttir og Mist Edvardsdóttir.

Ísland hefur verið miklu sterkara liðið í síðari hálfleik og Portúgalarnir hafa ekki ógnað mikið.  Reyndar þurfti Sif að bjarga á línu eftir hornspyrnu á 74. mínútu.

Berglind og Dóra María Lárusdóttir hafa átt góð skot að marki, sem markvörður heimamanna hefur varið í horn.

Fimm mínútur eftir.  Rakel Logadóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Elínborg Ingvarsdóttir eru komnar inn á fyrir Dagnýju, Rakeli Hönnud. og Söru.

0-3 fyrir Ísland!  Mark á 90. mín+3.  Dóra María Lárusdóttir skorar glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu rétt fyrir utan miðjan vítateig Portúgala.

Leik lokið!  Ísland vinnur öruggan þriggja marka sigur og hafnar í 9. sæti á Algarve-mótinu 2010!


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög