Landslið
Úr leik Íslands og Trinidad & Tobago

Þrjú sláarskot Íslands á Kýpur

Góður leikur íslenska liðsins

3.3.2010

Markalaust jafntefli varð niðurstaðan í vináttulandsleik Íslendinga og Kýpverja, sem fram fór í larnaca á Kýpur í dag, miðvikudag.  Íslenska liðið lék vel í  leiknum og gaf fá færi á sér.  Þrjú sláarskot í seinni hálfleik sýndu að lítið vantaði upp á íslenskan sigur.

Ísland sótti grimmt fyrstu mínúturnar, hornspyrnur og aukaspyrnur inn í teiginn, án þess þó að fá færi.  Heimamenn, sem vilja gjarnan hafa boltann á jörðinni og leika stutt sín á milli,
komust smám saman meira inn í leikinn, stjórnuðu ferðinni og ógnuðu íslenska markinu í nokkur skipti.  Lengst af í fyrri háfleik var jafnræði með liðunum og engin alvöru færi litu dagsins ljós. 

Markvörðurinn Árni Gautur Arason, sem var að leika sinn 70. A-landsleik, meiddist og þurfti að fara af leikvelli á 39. mínútu.  Inn á kom Gunnleifur Gunnleifsson.

Fyrri hálfleikur reyndist annars vera frekar tíðindalítill, ef undanskilið er eitt atvik undir loka hans þegar boltinn rúllaði eftir markteig íslenska liðsins, án þess að nokkur leikmaður næði að pota tánni í hann.  Markalaust í hálfleik.

Kýpverjar gerðu nokkrar breytingar í hléinu og byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafti,
voru nokkrum sinnum nærri því að fá alvöru færi, t.d eftir aukaspyrnu sem spyrnt var inn í teig og hornspyrnu sem kom upp úr því atviki.  Okkar strákar voru að verjast vel, börðust eins og ljón og gáfu ekkert eftir.  Heimamenn fengu aukaspyrnu á hættulegum stað snemma í síðari hálfleik, rétt utan vítateigs við bogann, en nýttu hana illa og settu boltann í varnarvegginn.

Íslendingar fóru að sækja meira eftir því sem leið á leikinn og Emil Hallfreðsson átti nokkra spretti upp vinstri kantinn.  Eftir rúmlega klukkutíma leik áttu Kýpverjar þrumuskot að marki eftir vel útfærða aukaspyrnu, en Gunnleifur varði glæsilega og náði svo að blaka knettinum frá þegar sóknarmaður kom aðvífandi og freistaði þess að ná frákastinu.

Ísland átti góðan kafla upp úr miðjum seinni hálfleik og var pressað stíft að marki heimamanna.  Rúrik Gíslason átti þrumuskot sem söng í þverslánni á merki Kýpverja, og skömmu síðar átti Aron Einar einnig þrumuskot, en yfir markið. Nokkrum mínútum síðar áttu Íslendingar aftur þrumuskot í slána, að þessu sinni Emil Hallfreðsson beint úr aukaspyrnu vel utan teigs.  Þriðja sláarskotið kom á 77. mínútu og aftur var Rúrik að verki, þrumufleygur af löngu færi sem fór í slána og niður, og virtist vera fyrir innan marklínuna.  Þarna hefði Ísland átt að vera komið með forystu í leiknum.

Heimamenn áttu síðasta færi leiksins, á lokasekúndunum, þegar sóknarmaður hafði betur í kapphlaupi við íslensku vörnina og reyndi að lyfta knettinum yfir Gunnleif í markinu, en hann var vel á verði og blakaði honum yfir markið.

Íslenska liðið lék vel í  leiknum og gaf fá færi á sér.  Sláarskotin þrjú í seinni hálfleik sýndu að lítið vantaði upp á íslenskan sigur.  Strákarnir okkar börðust af miklum krafti, eins og Íslenskra liða hefur verið siður í gegnum tíðina, og geta gengið frá þessum leik stoltir af sinni frammistöðu.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög