Landslið
Byrjunarlið Íslands gegn Finnlandi á Norðurlandamóti U17 kvenna sem leikið er í Danmörku.

NM U17 kvenna - Karakterssigur á Finnum

Leikið við Þjóðverja á morgun kl. 17:30 að íslenskum tíma

5.7.2010

Íslenska kvennalandsliðið skipað leikmönnum 16 ára og yngri vann í dag karakterssigur á Finnum, 1:0. Nokkur titringur var í íslenska liðinu í fyrri hálfleik enda margir leikmenn að spila sína fyrstu leiki fyrir hönd Íslands. Finnar voru því ívið sterkari og fengu 2 mjög góð færi sem Arna Lind Kristinsdóttir markvörður varði frábærlega. Þrátt fyrir að á móti blési héldu íslensku stelpurnar haus og gáfust aldrei upp þrátt fyrir mikinn atgang í vítateig þeirra. Þremur mínútum fyrir lok fyrrihálfleiks skoraði Guðmunda Brynja Óladóttir svo úrslitamarkið í leiknum með góðu skoti úr teignum eftir einstaklingsframtak. Það var því nokkuð ósanngjarnt að íslenska liðið fór í búningsklefa sinn með 1:0 forystu í hálfleik.
 
Í síðari hálfleik óx íslensku stúlkunum ásmegin og voru mun betri en þær finnsku. Meiri yfirvegun var í leik liðsins og leikmenn þorðu að halda boltanum og spiluðu mun betur sín á milli.
 
Aldís Kara Lúðvíksdóttir kom spræk inní framlínuna og fékk nokkur hálffæri ásamt því að vera nálægt því að næla í vítaspyrnu fyrir íslenska liðið en ekki var dómarinn henni hliðhollur. Hugrún Elvarsdóttir var annar varamaður sem kom skemmtilega inn í liðið. Hún komst á skömmum tíma mjög vel inní spil íslenska liðsins og fékk besta færi hálfleiksins þegar hún komst ein á móti finnska markmanninum sem varði frábærlega. Greinilegt er að breiddin er að aukast í íslenskum kvennafótbolta.
 
Í heildina var leikur Íslands nokkuð kaflaskiptur en þegar ró kom á liðið sýndi það allar sínar bestu hliðar. Varnarlínan var gríðarlega öflug með Örnu örugga fyrir aftan sig. Miðjumennirnir unnu mörg einvígi þegar mest á reyndi og kantspilið var gott. Ísland á svo tvo frábæra framherja í þessum aldursflokki í Aldísi og Guðmundu.
 
Á morgun leikur Ísland gegn Þýskalandi sem er eitt það allra besta í heiminum í þessum aldursflokki en ljóst er að liðið hefur margt gott að byggja á fyrir þann leik sem hefst kl. 17:30 á íslenskum tíma.
Byrjunarlið Íslands gegn Finnlandi á Norðurlandamóti U17 kvenna sem leikið er í Danmörku.
 
Mynd: Byrjunarlið Íslands í leiknum

Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög