Landslið
Íslenska liðið fyrir leikinn gegn Þjóðverjum á NM U17 kvenna 2010

Naumt tap gegn Þjóðverjum á NM U17 kvenna

Íris Björk Eysteinsdóttir skrifar frá Danmörku

6.7.2010

U17 lið Íslands í knattspyrnu kvenna tapaði í dag naumlega fyrir Þjóðverjum 1:0 á Norðurlandamótinu sem haldið er í Danmörku. Íslensku stelpurnar geta þrátt fyrir það verið stoltar af frammistöðu sinni í leiknum en þær sýndu aga, baráttu og sterka liðsheild.

Þjóðverjar byrjuðu leikinn betur og voru meira með boltann. Þær búa yfir ófyrirsjáanlegri boltatækni og náðu því að vera snöggar að hemja boltann og spila honum öruggt sín á milli. Íslensku stelpurnar voru gríðarlega grimmar og eins og í fyrri leik liðsins á mótinu urðu þær sterkari eftir því leið á leikinn.

Mark Þjóðverja kom rétt eftir miðjan fyrri hálfleik þar sem vinstri kantmaður þeirra lék á tvo íslenska leikmenn og sendi boltann beint á kollinn á félaga sínum sem skoraði með föstum skalla. Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik fyrir utan markið og sköpuðu Þjóðverjar sér fá afgerandi marktækifæri.

Arna Lind Kristinsdóttir var sem fyrr örugg í íslenska markinu og greip oft inní áður en veruleg hætta skapaðist. Vörnin stóð pliktina frábærlega með Írunni Þorbjörgu Aradóttur fyrirliða fremsta í flokki en staðsetningar hennar komu oft í veg fyrir að Þjóðverjar kæmu sér í veruleg marktækifæri. Annars var öll varnarlínan mjög öflug og ánægjulegt að sjá breiddina í íslenska hópnum en Svava Tara Ólafsdóttir spilaði sinn annan leik í byrjunarliði í bakverðinum og hélt niðri helsta sóknarmanni Þjóðverja. Þá voru þær Anna María Baldursdóttir og Ingunn Haraldsdóttir einnig öflugar í vörninni.

Liðið þjappaði sér mjög vel saman á miðjunni og fremst var Aldís Kara Lúðvíksdóttir alltaf líkleg til að skapa usla þegar hún fékk boltann og hljóp ótrauð að marki og lék á þýsku stelpurnar. Einnig ber að nefna að breiddin í hópnum er gríðarleg og virðast leikmenn mjög jafnir þar sem liðið styrktist við hverja innáskiptingu. Íslenska liðið getur gengið stolt frá verkefninu og tekið sterkan varnarleik með sér í leikinn gegn Svíum á fimmtudag en það er jafnframt síðasti leikurinn í riðlinum.

Hægt er að fylgjast með íslenska liðinu og senda þeim kveðjur á Facebook-síðu KSÍ.

Íslenska liðið fyrir leikinn gegn Þjóðverjum á NM U17 kvenna 2010


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög