Landslið
U17 kvenna sem tekur þátt á Norðurlandamótinu í Danmörku

Tap fyrir Noregi og 4. sætið staðreynd

Íris Björk Eysteinsdóttir skrifar frá Danmörku

11.7.2010

Íslensku stelpurnar í U17 ára landsliðinu töpuðu í dag naumlega fyrir Noregi 2:1 í Norðurlandamótinu í knattspyrnu og enduðu því í 4. sæti mótsins. Noregur varð með sigrinum Norðurlandsmeistari þar sem tvö gestalið kepptu um sigurinn en þar bar Bandaríkin sigurorð af Þjóðverjum 2:0.

Stelpurnar hófu leikinn af miklum krafti og Aldís Kara Lúðvíksdóttir skoraði strax í fyrstu sókn Íslands með góðu skoti eftir einstaklingsframtak. Leikurinn fór fram í um 30 stiga hita og dró fljótt af íslensku stelpunum. Þær norsku komust því inní leikinn og eignuðu sér fyrri hálfleikinn með góðu spili og tveimur mörkum. Í leikhléi breytti Þorlákur Árnason þjálfari Íslands um leikkerfi þar sem hann fjölgaði á miðjunni með því að draga annan framherjann lítið eitt til baka. Íslenska liðið hresstist mikið við það og fór leikur þeirra mjög vaxandi. Leikmenn þorðu að hafa boltann, sendu hann sín á milli og sköpuðu sér ágætis marktækifæri. Þau bestu fékk Guðmunda Brynja Óladóttir sem var snjöll að koma sér á rétta staði á réttum tíma. Íslensku stelpurnar höfðu algjöra yfirburði síðustu 20 mínútur leiksins og þurftu þær norsku á heppni að halda til að tapa ekki forystunni. Á síðustu mínútu leiksins var Guðmunda svo felld inní teig norska liðsins en ekkert var dæmt. Þar með var ljóst að Noregur vann leikinn þrátt fyrir frábæran síðari hálfleik hjá íslensku stelpunum sem börðust hetjulega í gegnum mikinn hita og virkilega góða mótstöðu. Þess má geta að aðalleikmaður Noregs var valinn besti leikmaður mótsins.

Í heildina getur íslenska liðið gengið mjög sátt frá borði eftir þessa keppni. Leikmenn stóðu sig það vel að eftir því var tekið af öðrum liðum. Það sýnir líka ákveðinn gæðastimpil á liðinu þegar lið eins og Holland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland enda öll neðar en það. Liðsheild íslenska liðsins var frábær en ekki má gleyma einstaklinsframtaki einstakra leikmanna sem sýndu það að þær búa yfir leikni til að taka á bestu leikmenn í heimi í sínum aldurshópi. Ánægjulegt var einnig að sjá hversu góðir skallamenn eru í hópnum og breiddin mikil. Því er óhætt að líta björtum augum fram í tímann þar sem framtíðarleikmenn Íslands léku hér í Danmörku. Næsta verkefni liðsins eru svo tveir æfingaleikir við Færeyar í lok júlí.

U17 kvenna sem tekur þátt á Norðurlandamótinu í Danmörku


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög