Landslið
Byrjunarlið U17 karla gegn Tyrkjum á Víkingsvelli

U17 karla - Sigur á Tyrkjum í hörkuleik

Lokaleikur Íslands á mánudag gegn Armeníu

24.9.2010

Strákarnir í U17 unnu frábæran sigur á Tyrkjum í dag en leikið var á Víkingsvelli.  Lokatölur urðu 2 - 0 Íslendingum í vil eftir að staðan hafði verið markalaus í leikhléi.  Þetta var annar leikur Íslands í riðlinum og þýða þessi úrslit að riðillinn er galopinn fyrir síðustu umferðina en Tékkar og Armenar gerðu jafntefli í hinum leik riðilsins, 1 - 1.

Markalaust var í leikhléi og leikurinn heldur tíðindalítill í fyrri hálfleiknum en það breyttist í síðari hálfleiknum því strax eftir fjórar mínútur fékk einn leikmanna Tyrkja að líta rauða spjaldið.  Íslensku strákarnir færðu sér það í nyt á 57. mínútu þegar Hjörtur Hermannsson skoraði með skalla eftir langt innkast frá Orra Sigurði Ómarssyni. 

Það var gríðarlega hart barist á leikvellinum og á 74. mínútu fékk annar leikmaður Tyrkja rauða spjaldið, í þetta skiptið þegar hann braut á Ragnari Braga Sveinssyni þegar hann var sloppinn einn innfyrir.  Lokamínúturnar voru æsispennandi því að gestirnir gáfust ekki upp og freistuðu þess að jafna metin.  Þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma, á 83. mínútu, fengu Íslendingar svo vítaspyrnu sem Oliver Sigurjónsson nýtti og glæsilegur sigur íslensku strákanna í höfn.

Íslendingar mæta Armenum í lokaumferðinni á mánudaginn.  Fer leikurinn fram í Keflavík og hefst kl. 16:00.  Á sama tíma mætast Tékkar og Tyrkir í Grindavík.  Tékkar eru í efsta sæti riðilsins með fjögur stig, Ísland og Tyrkland eru með þrjú stig og Armenar með eitt stig.  Tvö efstu liðin tryggja sér sæti í milliriðlum.  Þriðja sætið getur einnig gefið þar þátttökurétt en þær tvær þjóðir sem eru með bestan árangur í þriðja sætinu úr riðlinum þrettán, komast einnig í milliriðla.  Er þá einungis reiknaður árangur gegn tveimur efstu liðunum í riðlinum.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá leiknum en fleiri myndir er að finna á Facebooksíðu KSÍ.

Staðan í riðlinum

Byrjunarlið U17 karla gegn Tyrkjum á Víkingsvelli

Úr leik U17 karla gegn Tyrkjum á Víkingsvelli

Hjörvar skorar með skalla, 1 - 0 

Oliver skorar úr vítaspyrnu, 2 - 0

 

 

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög