Landslið
Byrjunarlið U17 gegn Armeníu í undakeppni EM

U17 karla - Sigur á Armenum og efsta sætið í riðlinum staðreynd

Strákarnir tryggðu sér sæti í milliriðlum EM

27.9.2010

Strákarnir í U17 tryggðu sér í dag sæti í milliriðlum EM þegar þeir lögðu Armena í Keflavík.  Lokatölur urðu 2 - 1 Íslendingum í vil eftir að staðan hafði verið 1 - 1 í leikhléi.  Ragnar Bragi Sveinsson og Oliver Sigurjónsson skoruðu mörk Íslands í leiknum.  Þessi úrslit þýddu jafnframt að Ísland varð í efsta sæti riðilsins, með sama stigafjölda og Tyrkir.  Þar sem íslensku strákarnir höfðu betur í innbyrðis viðureigninni við Tyrki, er efsta sætið þeirra.

Fyrir leikinn var ljóst að sigur í þessum leik tryggði Íslandi sæti í milliriðlum.  Jafntefli hefði einnig gefið sæti í milliriðlum að því gefnu að Tyrkir myndu ekki vinna Tékka.  Það var hinsvegar aldrei í spilunum hjá Tyrkjum því þeir unnu stórsigur á Tékkum, 6 - 1.

Ragnar Bragi Sveinsson kom íslensku strákunum yfir strax á 2. mínútu leiksins, sannarlega óskabyrjun hjá Íslendingum í Keflavík í dag.  Gestirnir gáfust ekki upp og jöfnuðu metin tíu mínútum síðar.  Armenar áttu með sigri möguleika á því að komast áfram í milliriðla og lögðu því allt í sölurnar í þessum leik.  Ekki komu fleiri mörk í fyrri hálfleiknum og leikmenn gengu vígamóðir til leikhlés eftir mikla baráttu.

Baráttan í seinni hálfleik var sú sama en eina mark hálfleiksins kom á 53. mínútu þegar íslenska liðið fékk vítaspyrnu.  Úr henni skoraði Oliver Sigurjónsson, sitt þriðja mark í þremur leikjum.  Reyndist þetta sigurmark leiksins og þegar norski dómarinn flautaði til leiksloka, braust út mikill fögnuður hjá íslensku strákunum.

Glæsilegur árangur hjá þessu efnilega liði og verður spennandi að fylgjast með liðinu í milliriðlunum.  Þeir verða leiknir í mars á næsta ári en dregið verður í riðlana sjö 30. nóvember næstkomandi.  Sigurvegarar riðlanna tryggja sér sæti í úrslitakeppninni sem fer fram í Serbíu í maí 2011.

Til hamingju með glæsilegan árangur strákar - Til hamingju Ísland!

Staðan í riðlinum

Leikskýrslan Ísland - Armenía

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög