Landslið
U21 karla Ísland-Skotland 2010 (Sportmyndir)

U21 karla - Sanngjarn sigur á Skotum

Seinni leikurinn fer fram í Edinborg á mánudaginn

7.10.2010

Strákarnir í U21 unnu góðan sigur á Skotum á Laugardalsvelli í kvöld að viðstöddum 7.255 áhorfendum.  Þetta var fyrri leikurinn í umspilsleikjum um sæti í úrslitakeppninni í Danmörku á næsta ári.  Seinni leikurinn verður í Edinborg, mánudaginn 11. október á Easter Road.

Íslensku strákarnir voru sterkari aðilinn í þessum leik en það voru Skotar sem komust yfir á 19. marki eftir varnarmistök Íslendinga.  Fyrir markið höfðu strákarnir fengið fín færi til þess að komast yfir og þeir létu þetta mark ekki slá sig út af laginu.

Það var svo Jóhann Berg Guðmundsson sem jafnaði metin á 34. mínútu með þrumufleyg fyrir utan vítateig.  Strákarnir héldu áfram að sækja að marki gestana en þegar hollenski dómari leiksins flautaði til leikhlés var staðan jöfn.

Undirtökin voru íslensku strákanna áfram í síðari hálfleiknum en Skotar lágu aftarlega og gáfu ekki mörg færi á sér.  Okkar strákar fengu þó ágætis möguleika á því að komast yfir en það þurfti glæsilegan þrumufleyg til að finna skosku netmöskvana að nýju.  Almarr Omarsson hafði verið inn á vellinum í 5 mínútur þegar hann skoraði með glæsilegu skoti af löngu færi á 78. mínútu.  Mörkin urðu ekki fleiri en metfjöldi áhorfenda á U21 leik klappaði strákunum verðskuldað lof í lófa í leikslok en stuðningur áhorfenda var virkilega góður í kvöld.

Góður sigur en það má segja að aðeins sé fyrri hálfleikur í þessu einvígi.  Miðað við gang leiksins í kvöld eru Skotarnir væntanlega sáttir með úrslitin í þessum leik og hugsa sér gott til glóðarinnar í seinni leiknum.  Það gera hinsvegar íslensku strákarnir einnig en ljóst er að mikil rimma er framundan í Edinborg á mánudaginn.  Þeir Hólmar Örn Eyjólfsson og Skúli Jón Friðgeirsson fengu áminningu í leiknum í kvöld sem þýðir að þeir verða í leikbanni í leiknum í Edinborg.

U21 karla Ísland-Skotland 2010

 

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög