Landslið
Futsal_01-gri-arm

Forkeppni EM í Futsal byrjuð

Grikkir og Armenar gerðu jafntefli í hörkuspennandi leik

21.1.2011

Eins og kynnt hefur verið fer þessa dagana fram riðill í forkeppni EM í Futsal að Ásvöllum í Hafnarfirði.  Ísland tekur nú þátt í fyrsta sinn og mætir Lettlandi í seinni leik dagsins, sem hefst kl. 19:00 og er í beinni vefútsendingu á Haukar TV – www.haukar.is/haukar-tv.  Fyrri leik dagsins lauk nú fyrir stundu, en þar mættust Grikkir og Armenar, og lauk hörkuspennandi leik með 2-2 jafntefli. 

Grikkir voru talsvert sterkari aðilinn nánast allan leikinn, voru mun meira með boltann og léku honum hratt á milli sín.  Armenska liðið lá hins vegar meira til baka, varðist af krafti og freistaði þess að beita skyndisóknum.  Bæði mörk armenska liðsins komu einmitt úr skyndisóknum, eftir mikla pressu gríska liðsins.  Armenarnir voru afar grimmir í vörninni og undir lokin virtust þeir grísku missa móðinn og verða örvæntingarfullir.  Síðustu mínúturnar settu Armenarnir í fluggír, enda virtist gríska liðið vera búið að gefa upp vonina.  Fjölmörg dauðafæri Armena náðu ekki inn í markið og jafntefli varð því niðurstaðan, í hörkuspennandi leik sem bauð upp á mikil tilþrif af hálfu beggja liða.

Sterkasti maður Grikkja var fyrirliði þeirra, Sokratis Mourdoukoutas (nr. 10), og er ljóst að íslenska liðið verður að hafa góðar gætur á honum  þegar það mætir gríska liðinu á mánudag, í lokaumferðinni. 

Armenarnir voru gríðarlega vel skipulagðir og settu upp varnarmúr sem erfitt er að brjóta niður.  Ekki er víst að þeir leiki eins gegn Íslandi á laugardag, enda eru Grikkir taldir vera með sterkasta liðið í riðlinum.

Mótið skiptist upp í forkeppni, undankeppni og úrslitakeppni.  Aðeins eitt lið kemst áfram úr riðlinum sem leikinn er að Ásvöllum.  Allir leikir íslenska liðsins eru í beinni vefútsendingu á Haukar TV.

Tengill á leikskýrsluna á uefa.com

Tengill á mótið á ksi.is

Futsal_02-gri-arm


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög