Landslið
Futsal  Ísland - Lettland

Naumt tap Futsal-landsliðsins gegn Lettum

Góð frammistaða í jöfnum og spennandi leik

21.1.2011

Ísland mætti Lettlandi á Ásvöllum í Hafnarfirði í forkeppni EM 2012 í Futsal og það er ekki hægt að segja annað en að íslenska liðið hafi staðið sig með prýði, þrátt fyrir naumt 4-5 tap.  Leikurinn var hnífjafn allan tímann og hörkuspennandi, hraður og skemmtilegur og mikið um baráttu og flotta takta.

Lettarnir náðu forystu eftir 10 mínútur, en íslenska liðið svaraði með mörkum frá Magnúsi Sverri Þorsteinssyni og Þórarni Inga Valdimarssyni og þannig var staðan í hálfleik .  Lettarnir jöfnuðu svo metin snemma í seinni hálfleik, en Guðmundur Steinarsson kom Íslandi yfir að nýju með þrumuskoti beint úr aukaspyrnu.  Lettarnir svöruðu með tveimur mörkum og voru skyndilega komnir með forystu.  En seiglan var mikil í íslenska liðinu og Þórarinn Ingi skoraði sitt annað mark þegar 10 mínútur voru eftir, staðan jöfn.  Reynsla lettneska liðsins sýndi sig hins vegar og þeir skoruðu sitt fimmta mark þegar rúmlega fimm mínútur voru eftir og héldu forystunni þrátt fyrir ágætar tilraunir okkar stráka.

Heilt yfir var þetta fínasta byrjun Íslands í Futsal, góð frammistaða og mikil óheppni að ná ekki að landa fyrsta stiginu.

Næstu leikir í mótinu eru á laugardag, að Ásvöllum, og mæta Íslendingar Armenum, sem gerðu jafntefli við Grikki í fyrstu umferð.  Fólk er hvatt til að fjölmenna og sjá Futsalveislu!

Tengill á leikskýrsluna á uefa.com

Tengill á mótið á ksi.is


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög