Landslið
Landslið Íslands í Futsal janúar 2011

EM í Futsal - Ísland mætir Armenum kl. 17:00

Forkeppni EM fer fram á Ásvöllum

22.1.2011

Ísland leikur sinn annan leik í dag í forkeppni EM 2012 í Futsal þegar þeir taka á móti Armenum á Ásvöllum kl. 17:00.  Þetta er um leið annar landsleikur Íslands í þessari íþrótt en strákarnir biðu lægri hlut gegn Lettum í gærkvöldi, 4 - 5, í bráðskemmtilegum og æsispennandi leik. 

Armenar og Grikkir áttust einnig við í gær og lyktaði þeim leik með jafntefli, 2 - 2, sem voru nokkuð óvænt úrslit því Grikkirnir þóttu sigurstranglegastir allra liða fyrir mótið.  Armenar voru þó hársbreidd frá því að tryggja sér sigurinn í gær og eru til alls líklegir.  Það eru íslensku strákarnir einnig, þeir voru óheppnir að fá ekki eitthvað út úr leiknum í gærkvöldi og sýndu skemmtileg tilþrif.

Leikur Íslands og Armeníu hefst kl. 17:00 en á undan leika Grikkir og Lettar.  Við hvetjum áhorfendur til þess að koma á Ásvelli og styðja við strákana í þessari skemmtilegu íþrótt.  Aðgangur á alla leiki mótsins er ókeypis.

Hægt er að fylgjast með leiknum einnig í beinni vefútsendingu á HaukaTV en þar er það Ómar Smárason sem að lýsir því sem fyrir augu ber og einhverju meiru.  Leikir Íslands eru sýndir á þessari síðu en þess má geta að um 33.000 notendur tengdu sig inn á útsendinguna í gær og urðu því einhverjar truflanir vegna mikils álags.

www.haukar.is/haukar-tv

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög