Landslið
Futsal - Úr leik Letta og Grikkja

Léttleikandi Lettar í góðri stöðu

Unnu sannfærandi sigur á andlausum Grikkjum

22.1.2011

Lettar eru í góðri stöðu í forkeppni EM í Futsal eftir sannfærandi 4-0 sigur á Grikkjum að Ásvöllum í Hafnarfirði.  Lettneska liðið er afar léttleikandi og gríðarlega samstillt, og Grikkirnir virtust engin svör eiga við krafti og dugnaði Lettanna, virkuðu hreinlega andlausir.

Lettarnir voru líklegri aðilinn alveg frá byrjun en fyrsta mark leiksins kom um  miðjan fyrri hálfleik þegar leikmaður gríska liðsins skoraði slysalegt sjálfsmark.  Við það virtust Grikkirnir hreinlega brotna og Lettarnir gengu á lagið og bættu við tveimur mörkum fyrir hlé.  Fjórða markið kom svo í upphafi seinni hálfleiks og þó Grikkir hafi náð að hressa sig aðeins við undir lokin virtust þeir aldrei líklegir til afreka.

Grikkland var fyrirfram talið sterkasta liðið í riðlinum, en miðað við frammistöðuna í þessum tveimur leikjum var það ofmat, enda eiga þeir ekki lengur möguleika á efsta sætinu.  Lettar eru hins vegar í lykilstöðu.  Ísland getur ekki komist upp fyrir Letta vegna úrslita í innbyrðis viðureign á föstudag.  Ef Armenar vinna ekki gegn Íslandi eru Lettarnir einfaldlega komnir áfram í undankeppnina.

Leikjum keppninnar er streymt í beinni vefútsendingu á Haukar TV og leikjum Íslands er lýst.  Á föstudag brást útsendingin af þeim ástæðum að um 33.000 manns vildu sjá leikinn á netinu og við það réði netþjónnin hreinlega ekki.  Um tveir þriðju þeirra sem  vildu fylgjast með á netinu tengdust frá Lettlandi og greinilegt að Futsal vekur mikinn áhuga þar í landi. 

Tengill á leikskýrsluna á uefa.com

Tengill á mótið á ksi.is


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög