Landslið
Futsal - Þorsteinn Már reynir markskot

Ísland hafnaði í 2. sæti í Futsal-riðlinum

Íslenska liðið lagði Grikki 5-4 í lokaumferðinni

24.1.2011

Ísland hafnaði í 2. sæti riðilsins í forkeppni EM 2012 í Futsal, sem leikinn var að Ásvöllum.  Sigur gegn Grikkjum í dag, mánudag, þýddi að íslenska liðið lauk keppni með 6 stig.  Lettar unnu sigur í riðlinum með fullt hús, en Grikkir og Armenar fengu eitt stig hvort lið.

Grikkirnir skoruðu fyrsta mark leiksins og fögnuðu ógurlega, enda hafði þeim gengið heldur illa í keppninni.  Íslendingar svöruðu hins vegar með mörkum frá Þórarni Inga Valdimarssyni og Tryggva Guðmundssyni og leiddu 2-1 í hálfleik.  Merkilegt nokk er að Ísland leiddi 2-1 í öllum leikjum sínum í riðlinum.  Gríska liðið hafði reyndar fengið nokkur góð færi í fyrri hálfleik og hefði, svo sanngirni sé gætt, hæglega getað skorað eitt til tvö mörk. 

Næstu þrjú mörkin í leiknum voru íslensk og breyttu stöðunni í 5-1 fyrir Ísland, og allt útlit fyrir annan stórsigurinn í röð.  Þórarinn Ingi skoraði fjórða mark sitt í keppninni, Þorsteinn Már Ragnarsson og Magnús Sverrir Þorsteinsson skoruðu hin.  Grikkirnir gáfust hins vegar ekki upp, tóku áhættu og settu útileikmann inn á í stað markvarðar, og það skilaði þeim þremur mörkum á fjögurra mínútna kafla, öllum með langskotum frá Papadopoulos og staðan orðin, 5-4 þegar aðeins ein mínúta var eftir af leiknum.  Það fór þó svo að íslenska vörnin hélt út og sigrinum var siglt í höfn.

Þessi frammistaða íslenska liðsins, í frumraun sinni í EM landsliða í Futsal, var framar vonum, verður að segjast.  Glimrandi leikir hjá okkar strákum og greinilegt að Futsal-landsliðið er komið til að vera.  Hver veit hvað hefði gerst ef tekist hefði að ná jöfnu gegn Lettum í fyrsta leik?

Tengill á leikskýrsluna á uefa.com

Tengill á mótið á ksi.is

 

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög