Landslið
Byrjunarlið Íslands gegn Svíum á Algarve Cup 2011.

Tap í hörkuúrslitaleik á Algarve

Annað sætið staðreynd á hinu sterka Algarvemóti

9.3.2011

Stelpurnar í íslenska landsliðinu báðu í dag lægri hlut gegn stöllum sínum frá Bandaríkjunum þegar leikið var til úrslita á Algarvemótinu.  Lokatölur urðu 4 - 2 fyrir efsta liði styrkleikalista FIFA en staðan var jöfn í leikhléi, 2 - 2.

Leikurinn byrjaði á fjörugan hátt og fengu Bandaríkin gott færi á fyrstu mínútu leiksins.  Á 5. mínútu átti Sif Atladóttir langt innkast sem að Katrín Ómarsdóttir skallaði í slána.  Þremur mínútum síðar komust svo Bandaríkin yfir.

Tveggja mínútna kafli setti svo bandaríska liðið út af laginu upp úr miðjum fyrri hálfleiknum.  Á 24. mínútu jafnaði Katrín Ómarsdóttir metin eftir að boltinn barst til hennar eftir fyrirgjöf frá Hallberu Gísladóttur.  Aðeins tveimur mínútum síðar vann Hallbera boltann, lék með boltann að vítateignum og skoraði með glæsilegu skoti.  Bandaríska liðið var smátíma að jafna sig á þessu áfalli og sótti mikið sem eftir lifði hálfleiks.  Það bar svo árangur á síðustu sekúndum uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar jöfnunamarkið kom.  Þýski dómarinn, Bibiana Steinhaus, flautaði svo til leikhlés áður en íslenska liðið náði að hefja leikinn að nýju.

Seinni hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri en Bandaríkin sá um markaskorunina í hálfleiknum og tryggði sér sigur með tveimur mörkum, á 57. og 87. mínútu.  Mótherjarnir voru meira með boltann en íslenska liðið sótti þegar færi gáfust.  Ekki náðu okkar stelpur að skapa nein dauðafæri í hálfleiknum fyrr en í uppbótartíma þegar Dagný Brynjarsdóttir skaut framhjá eftir góðan undirbúning Fanndísar Friðriksdóttur.

Annað sætið staðreynd eftir frábæra frammistöðu á þessu sterka móti.  Þetta er besti árangur íslenska liðsins á mótinu til þessa en Bandaríkin voru að vinna mótið í 8. skiptið og hafa leikið til úrslita á níu Algarvemótum í röð.  Langt og strangt mót að baki en heldur íslenska liðið heim á leið á morgun.

Leikskýrslan


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög