Landslið
UEFA EM A-landsliða kvenna

Ísland - Búlgaría á morgun kl. 19:30

Fyrsti leikurinn í undankeppni EM fer fram á Laugardalsvelli fimmtudaginn 19. maí

18.5.2011

Stelpurnar okkar leika sinn fyrsta leik í undankeppni EM kvenna á morgun, fimmtudaginn 19. maí, á Laugardalsvelli.  Mótherjarnir eru Búlgarir og hefst leikurinn kl. 19:30.  Miðasala er í gangi hjá midi.is og kostar 1.000 krónur fyrir fullorðna 17 ára og eldri en frítt er inn fyrir 16 ára og yngri.

Eins og áður sagði er þetta fyrsti leikur Íslands í keppninni sem og sá fyrsti í riðlinum.  Næsti leikur riðilsins verður einmitt einnig hér á Laugardalsvelli þegar tekið verður á móti Noregi 17. september.  Þetta er einnig fyrsti heimaleikur liðsins síðan 21. ágúst síðastliðinn þegar liðið tapaði gegn Frökkum í undankeppni HM, 0 - 1.  Liðið hélt svo þaðan og lagði heimastúlkur í Eistlandi, 5 - 0, í lokaleik sínum í undankeppninni.

Þetta er jafnframt fyrsti leikur liðsins síðan leikið var á Algarve Cup í mars á þessu ári.  Þar náðist besti árangur Íslands frá upphafi á því móti þegar annað sætið kom í hlut Íslands.  Liðið lagði Svía, Kínverja og Dani að velli áður en kom að úrslitaleik gegn Bandaríkjunum.  Þar höfðu andstæðingarnir betur, 4 - 2, í hörkuleik og verður svo sannarlega spennandi að fylgjast með stelpunum í þessum leik gegn Búlgörum.

Við hvetjum alla til að koma í Laugardalinn og hvetja stelpurnar til sigurs.  Það verður rúmenskur dómari sem flautar til leiks kl. 19:30 á Laugardalsvelli og þá hljómar vonandi "Áfram Ísland" um allan dal.

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög