Landslið
UEFA EM U21 karla

Hvít-Rússar unnu tveggja marka sigur

Íslenska liðið betra lengst af – víti og rautt spjald
vendipunktur

11.6.2011

Hvít-Rússar unnu í dag tveggja marka sigur á Íslandi í opnunarleik EM U21 landsliða karla sem fram fer í Danmörku.  Íslenska liðið var betri aðilinn í leiknum lengst af, en vítaspyrna og brottvísun þegar stundarfjórðungur var eftir gjörbreytti leiknum. 

Fyrri hálfleikur var heldur bragðdaufur og nokkuð ljóst að bæði liðin fóru afara varlega inn í þennan fyrsta leik mótsins.  Marktilraunirnar voru teljandi á fingrum annarrar handar, þó íslenska liðið hafi verið nokkuð meira með boltann og stjórnað spilinu.

Síðari hálfleikur var mun fjörugri og þrjár marktilraunir Kolbeins Sigþórssonar gáfu tilefni til að ætla að íslenska liðið myndi hafa sigur á afar varnarsinnuðu liði Hvít-Rússa.  Í tvö skiptin varði markvörðurinn glæsilega frá Kolbeini, sem komst einn í gegn, og í eitt skiptið átti Kolbeinn skalla rétt framhjá eftir hornspyrnu. 

Á 76. mínútu náðu hinir rauðklæddu skyndisókn upp kantinn þar sem sóknarmaður þeirra lék á þrjá varnarmenn íslenska liðsins og var kominn inn í vítateig, einn gegn Haraldi markmanni, þegar hann var féll.  Vítaspyrna dæmd og Aroni Einari Gunnarssyni, sem hafði öll völd á miðjunni fram að þessu, vísað af velli fyrir að ræna mótherja augljósu marktækifæri.  Hvít-Rússarnir skoruðu úr vítaspyrnunni og kláruðu leikinn með sínu öðru marki á 87. mínútu.

Niðurstaðan afar svekkjandi fyrir íslenska liðið, sem var mun betri aðilinn í leiiknum allt fram að vítaspyrnudómnum og rauða spjaldinu.

Næsti leikur liðsins er á þriðjudag gegn Sviss.
Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög