Landslið
UEFA EM U21 karla

Tveggja marka sigur hjá Sviss

Lokaleikur Íslands í riðlinum gegn Dönum á laugardag

14.6.2011

Strákarnir í U21 lutu í lægra haldi gegn Sviss í dag í úrslitakeppni EM en leikið var í Álaborg.  Lokatölur urðu 2 - 0 fyrir Sviss og komu bæði mörkin í fyrri hálfleik.  Lokaleikur Íslands er gegn gestgjöfum Dana á laugardaginn.

Það er óhætt að segja að leikmenn Sviss hafi fengið óskabyrjun því að fyrsta mark þeirra kom strax á fyrstu mínútu leiksins.  Íslensku strákarnir komust aldrei í takt við leikinn og réðu mótherjarnir gangi fyrri hálfleiks.  Þeir bættu svo við seinna markinu á 40. mínútu og ljóst að róðurinn yrði erfiður sem eftir lifði leiks.

Seinni hálfleikur var mun líflegri af hálfu íslenska liðsins og ógnuðu þeir marki mótherjanna nokkrum sinni en komu boltanum ekki í netið, utan einu sinni en það mark var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Það voru svo leikmenn Sviss sem fögnuðu sigri og eru með þægilega stöðu í riðlinum en Íslendingar eru enn án stiga. 

Síðar í kvöld leika Danir og Hvít Rússar og með sigri Dana þá eygja Íslendingar enn von um sæti í undanúrslitum.  Þá þyrfti til öruggan sigur á Dönum og treysta á að Sviss vinni Hvít Rússa í lokaumferðinni.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög