Landslið
Byrjunarlið Svíþjóðar og Íslands á Melavellinum 29. júní 1951.  Lið Íslands er fjær á myndinni

60 ár frá því að Svíar voru lagði á Melavelli

Dagsins minnst sem eins hins fræknasta í íslenskri íþróttasögu

29.6.2011

Í dag eru liðin 60 ár frá því að Íslendingar lögðu Svía í landsleik í knattspyrnu en leikið var á Melavellinum.  Lokatölur urðu 4 – 3 Íslendingum í vil og skoraði Ríkharður Jónsson öll mörk Íslendinga.  Þessi dagur hefur jafnan verið minnst sem eins hins fræknasta í íslenskri íþróttasögu því sama dag höfðu Íslendingar betur gegn Dönum og Norðmönnum í landskeppni í frjálsum íþróttum sem fram fór í Osló.

Leikurinn gegn Svíum, 29. júní 1951, var fimmti landsleikur Íslands frá upphafi og annar sigurleikurinn.  Fyrsti sigurinn var gegn Finnum á Melavellinum 2. júlí 1949.

Í bókinni „Knattspyrna í heila öld“ eftir þá Víði Sigurðsson og Sigurð Á. Friðþjófsson er eftirfarandi frásögn frá leiknum:

„Kalsaveður var og hafði rignt skömmu áður en leikurinn hófst og Melavöllurinn því þungur og háll.  Þrátt fyrir leiðindaveður var fjölmenni á vellinum.  Í fyrsta skipti hafði íslenskur þjálfari verið fenginn til að stýra landsliðinu, en það var Óli B. Jónsson.

Strax í byrjun leiksins kom í ljós óvenjumikill baráttuvilji íslenska liðsins, en Svíarnir voru seinir í gang.  Ríkharður Jónsson skoraði tvö mörk undir lok fyrri hálfleiks og þannig var staðan í leikhléi, 2 – 0.  Skömmu eftir að seinni hálfleikur hófst bætti Ríkharður þriðja markinu við með skalla, en við það var sem Svíarnir vöknuðu af dvala.  Gerður þeir harða hríð að íslenska markinu og skoruðu tvö mörk á tveimur mínútum.  En þar var skammt stórra högga á milli, því að Ríkharður skoraði fjórða mark sitt fjórum mínútum síðar.  Síðustu mínútur leiksins sóttu Svíar án afláts og skoruðu sitt þriðja mark þegar tvær mínútur voru til leiksloka.  Á síðustu mínútunni fengu þeir hornspyrnu og munaði þá mjóu að þeir jöfnuðu, en knötturinn lenti í stöng eftir skalla.“

Á meðan leik stóð voru úrslitin í landskeppninni í frjálsum íþróttum tilkynnt í hátalarakerfi Melavallarins.  Baldur Jónsson vallarvörður á Melavellinum til fjölda ára segir þetta eftirminnilegustu stund sína á Melavellinum og segir m.a. þannig frá í sömu bók:

„Þegar hálftími var liðinn af leiknum hafði ekkert mark verið skorað.  Þá var ég boðaður í símann.  Það var Benedikt [Jakobsson fararstjóri frjálsíþróttafólksins] að tilkynna mér úrslitin í Osló.  Ég fór beint í míkrófóninn og tilkynnti að íslensku frjálsíþróttamennirnir hefðu sigrað Norðurlandaþjóðirnar.  Á meðan ég talaði hefði mátt heyra saumnál detta á Melavellinum.  En allt í einu brast þetta ógurlega hljóð á.  Seinna var mér sagt að það hefði heyrst alla leið inn að Elliðaám.  Þar var fólk á ferð sem skildi ekkert í því hvað í ósköpunum væri að gerast.  Þessi tíðindi virkuðu sem vítamínsprauta á þessa ágætu knattspyrnumenn okkar.  Þeir léku á als oddi allan tímann.“

Fyrir 10 árum var haldið upp á 50 ára afmæli þessa viðburðar sem byrjaði í með samkomu Neskirkju áður en haldið var í Súlnasal Hótel Sögu, með viðkomu á Melavelli, þar sem þeir er voru í aðalhlutverki þennan dag voru heiðraðir.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög