Landslið
EURO 2012

Mark Kolbeins tryggði sigur á Kýpur

Ísland lagði Kýpur á Laugardalsvelli í kvöld

6.9.2011

Íslendingar unnu langþráðan sigur í kvöld í undankeppni EM þegar Kýpverjar voru lagðir af velli á Laugardalsvelli í kvöld.  Mark Kolbeins Sigþórssonar á 5. mínútu dugði til sigurs og eru Íslendingar með fjögur stig í fjórða sæti riðilsins.

Góð byrjun Íslendinga gaf af sér mark strax á 5. mínútu.  Eftir góða sókn sendi Jóhann Berg Guðmundsson sendingu fyrir markið sem Kolbeinn afgreiddi í netið.  Íslendingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og gengu til leikhlés með eins marks forystu.

Gestirnir mættu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og áttu hættulegar sóknir sem annaðhvort strönduðu á varnarlínu Íslands eða Hannesi Þór Halldórssyni markmanni sem stóð sig frábærlega í sínum fyrsta landsleik.  Stigunum þremur var svo vel fagnað í leikslok af leikmönnum, þjálfurum og 5.267 áhorfendum sem mættu á Laugardalsvöll í kvöld.

Næsti leikur Íslands er á útivelli gegn Portúgal ytra og er það síðasti leikur Íslands í undankeppni EM 2012.  Fer hann fram föstudaginn 7. október.  Portúgal er í efsta sæti riðilsins á markatölu með 13 stig.  Danmörk og Noregur hafa einnig 13 stig en Norðmenn hafa leikið einum leik meira en hinar þjóðirnar.  Danir höfðu betur gegn Norðmönnum í kvöld, unnu með tveimur mörkum gegn engu á Parken.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög