Landslið
Byrjunarlið Íslands gegn Kasakstan í undankeppni EM, október 2011

U17 kvenna - Umfjöllun um sigurleikinn gegn Kasakstan

Jafntefli gegn Skotum dugir til að tryggja sæti í milliriðlum

10.10.2011

Stelpurnar í U17 lögðu lið Kasakstan í öðrum leik sínum í undankeppni EM en leikið er í Austurríki.  Lokatölur urðu 3 - 0 en Skotar verða mótherjarnir í síðasta leik liðsins á miðvikudag.  Jafntefli í þeim leik duga íslenska liðinu en sigurvegari riðilsins kemst áfram í milliriðla ásamt þeim fjórum þjóðum er bestan árangur hafa í öðru sæti riðlanna tíu.

Tómas Þóroddsson er með hópnum úti ásamt fleirum og hefur hann sent okkur meðfylgjandi umfjöllun um leikinn gegn Kasakstan.

Íslendingar tóku á móti  Kasakstan í öðrum leik undanriðils Evrópumótsins í dag. Leikurinn hófst kl 11.00 að staðartíma, eða kl 09.00 að íslenskum tíma og það á sunnudagsmorgni. Þrátt fyrir ókristilegan leiktíma stóðu íslensku stelpurnar sig vel og unnu andstæðinga sína 3-0. Í byrjun leiks fengu áhorfendur og leikmenn nýja sýn orðatiltækið “skiptist á skin og skúrir” því aðeins rigndi á öðrum helmingi vallarins í upphafi leiks.

Íslendingar byrjuðu leikinn með miklum látum og strax á 1. mínútu átti Elma Lára skalla í slá eftir aukaspyrnu frá Láru. Á 5. mínútu átti svo Glódís Perla fínt skot rétt yfir. Fjórum mínútum síðar kom Heiða upp kantinn, fann Svövu sem  kom boltanum glæsilega í fyrsta inn fyrir á Hönnu sem átti gott skot sem var varið. Mínútu síðar gaf Hanna inn fyrir á Svövu en fínt skot hennar var vel varið.

Nokkuð ljóst var í hvað leikurinn stefndi þarna en lið Kasakstan var með fimm manna vörn og fjóra fasta þar fyrir framan. Það gat því reynst erfitt að opna svo þétta vörn en íslensku stúlkurnar eru klókar og geta verið þolinmóðar sem er lykillinn að sigri í svona leik.

Á 19. mínútu fengu íslendingar aukaspyrnu á 30 metra færi. Glódís Perla tók spyrnuna og hamraði boltann upp í vinkilinn. Glæsilegt mark hjá stelpunni og algjörlega óverjandi fyrir markmann andstæðinganna. Fimm mínútum síðar átti Elma Lára gott skot fyrir utan teig sem var varið. Mínútu síðar kom Svava upp vinstri kantinn og átti góða sendingu fyrir á Hönnu sem setti boltann rétt framhjá.

Þegar um hálftími var liðinn af leiknum gaf Heiða góða sendingu á Telmu sem lék á varnarmann og gaf góða sendingu fyrir. Boltinn fór beint á kollinn á Svövu sem átti flottan skalla rétt yfir. Glæsileg sókn eins og reyndar nokkrar sóknir í leiknum. Mínútu síðar borgaði Svava í sama er hún átti góða sendingu fyrir á Telmu en lúmskt skot hennar lak framhjá stönginni. Á 33. mínútu átti Lára flott skot sem var vel varið.

Það var síðasta alvöru færi Íslands í fyrri hálfleik. Ótrúlegt að staðan hafi einungis verið 1-0 í hálfleik og óhætt að segja að heilladísinar hafi verið í liði mótherjanna.. Markmaður Íslendinga,  Berglind Hrund, kom aðeins einu sinni við boltann í fyrri hálfleik er hún tók við sendingu frá samherja.

Í hálfleik kom Guðrún inn fyrir Ingunni og Berglind Rós kom inn fyrir Hönnu. Seinni hálfleikur byrjaði svo eins og sá fyrri með stórsókn íslendinga. Á fyrstu mínútu átti Svava gott skot rétt framhjá. Tveimur mínútum síðar kom Telma upp kantinn og átti sendingu fyrir á Berglindi, sem lagði boltann út á Ellu Dís sem átti gott skot rétt framhjá.

Þegar fimm mínútur voru búnar af seinni hálfleik tók Telma stutt horn á Svövu sem gaf í fyrsta til baka. Telma kom með góða sendingu á fjærstöng þar sem Glódís var mætt og skallaði boltann í netið af miklum krafti. Frábært mark hjá öllum sem að því komu og staðan orðin 2-0 fyrir Ísland. Fimm mínútum síðar gaf Guðrún góða sendingu á Glódísi sem átti fínt skot í hliðarnetið.

Stuttu síðar kom Eva Lind inn fyrir Elmu Láru. Á 58. mínútu átti Telma góða sendingu inn á Berglindi Rós en flott skot hennar var mjög vel varið. Á 63. mínútu spiluðu Eva Lind og Telma sig vel í gegn og Telma átti síðan góða sendingu fyrir á Berglindi Rós sem skaut rétt yfir. Mínútu síðar átti Berglind annað flott skot sem var vel varið. Um það bil mínútu síðar fékk hún þriðju tilraun sína en enn og aftur var markmaður andstæðingana vel á verði og varði frábært skot hennar í horn.

Á 70. mínútu var komið að þætti Berglindar Hrundar í markinu er hún varði glæsilega í fyrsta og eina sinn sem þess þurfti. En þá fengu Kasakar aukaspyrnu á um 30 metra færi sem Berglind varði vel. Á 74. mínútu stakk Ella Dís flottri sendingu inn á Evu Lind, en markmaður andstæðinganna lokaði vel og varði gott skot hennar.

Mínútu síðar gaf Guðrún góða stungusendingu inn á Evu Lind sem setti nú boltann glæsilega framhjá markmanninum og í netið. Kom þar með Íslendingum í 3-0 og skoraði mark í sínum fyrsta landsleik. Síðasta alvöru færi leiksins fékk Lára, en skot hennar úr aukaspyrnu fór í hliðarnetið. Þrátt fyrir að marktilraunir leiksins hafi verið 31-1 Íslendingum í vil fór leikurinn aðeins 3-0. Góður vinnusigur íslendinga samt staðreynd. 

Íslenska vörnin stóð sig líka virkilega vel í leiknum og áttu mótherjarnir aldrei möguleika á að skora. Aðeins eina aukaspyrnu af um 30 metra færi sem þurfti að verja.

Síðasti leikur okkar stúlkna í þessum undanriðli er gegn Skotlandi á miðvikudag og hefst hann kl. 14.00 að íslenskum tíma.

Staðan í riðlinum

Keppnin á uefa.com

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög