Landslið
Lars-Lagerback

Lars Lagerbäck sáttur við niðurröðunina

Dregið í niðurröðun leikja

22.11.2011

Þjóðirnar sem leika saman í E-riðli undankeppni HM 2014, riðlinum sem Ísland leikur í, funduðu í dag um niðurröðun leikja í riðlinum.  Fulltrúar þjóðanna komust ekki að niðurstöðu um röð leikjanna og því var dregið í töfluröð eins og venjan er þegar svo gerist.

Þjálfari A landsliðs karla, Lars Lagerbäck, var viðstaddur fund um niðurröðun leikjanna ásamt formanni og framkvæmdastjóra KSÍ.  Lars hafði þetta að segja um niðurstöðuna:

"Ég er bara nokkuð sáttur.  Það er alltaf betra að mínu mati ef menn geta komist að niðurstöðu án þess að það þurfi að draga í töfluröð, því þú veist ekki hver niðurstaðan verður.  Þetta er í fyrsta skipti sem ég lendi í því að það þurfi að draga, en niðurstaðan er vel ásættanleg.  Ég hefði kannski viljað sleppa við eitt af sterkustu liðunum í fyrsta leik, en auðvitað þurfum við að spila við öll liðin hvort eð er, þannig að það skiptir kannski ekki það miklu máli í hvaða röð það er.  Annars finnst mér bara ágætur taktur í þessu, þ.e. í röðun heima- og útileikja.  Í leikjadagskránni eru margir tvíhöfðar, þ.e. tveir leikir í röð, sem ég held að henti vel, því það er gott að geta haft liðin saman í lengri tíma."

Fyrsti leikurinn áhugaverður

"Þessi fyrsti leikur í keppninni, á móti Noregi, er mjög áhugaverður, bæði vegna tengsla þessara þjóða og svo þeirrar staðreyndar að þau hafa mæst nokkuð oft á síðustu árum, alltaf spennandi leikir.  Við þekkjum því norska liðið ágætlega og munum alltaf mæta þeim fullir sjálfstrausts, af fullum krafti, þetta verður hörkuleikur." 

Allt mögulegt í fótbolta

"Við höfum í sjálfu sér ekki sett okkur nákvæm markmið fyrir riðilinn, munum við skoða það þegar nær dregur, en það er ljóst í mínum huga að markmiðið í hverjum leik er að vinna sigur.  Það sem er mikilvægast er að við undirbúum okkur vel og byrjun undirbúninginn af krafti strax í byrjun árs, þegar starfsliðið, þjálfarar og aðrir, stillir saman strengina.  Við þurfum að fá vináttulandsleiki gegn sterkum þjóðum, á öllum landsleikjadögum sem okkur standa til boða.  Riðillinn finnst mér nokkuð jafn, og þó svo að Ísland sé í neðsta styrkleikaflokki tel ég að við getum unnið öll þessi lið á góðum degi, ef allir vinna að sama marki og standa saman, leikmenn, þjálfarar, starfslið, og stuðningsmenn.  Þetta verður auðvitað erfitt, allir leikirnir verða erfiðir, en það er allt mögulegt í fótbolta."


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög