Landslið
Svartfjallaland

Fyrsti knattspyrnulandsleikur Íslands og Svartfjallalands

Svartfellingar hafa náð frábærum árangri á knattspyrnuvellinum síðustu ár

27.2.2012

Ísland og Svartfjallaland mætast í vináttulandsleik á Pod Goricom-leikvanginum í Podgorica á miðvikudag og hefst leikurinn kl. 17:00 að íslenskum tíma. Þessar þjóðir hafa aldrei áður mæst í landsleik, hvorki í A landsliðum né yngri landsliðum.

Knattspyrnusamband Svartfjallalands var stofnað í júni 2006, en áður léku leikmenn þaðan með landsliði Júgóslavíu og síðan með sameiginlegu landsliði Serbíu og Svartfjallalands. Formaður knattspyrnusambandsins þar í landi er hinn kunni knattspyrnukappi Dejan Savicevic, sem m.a. lék með AC Milan.

Svartfjallaland er ekki stórt, aðeins um 14 þúsund ferkílómetrar og íbúar landsins eru um 660.000, en þar af búa um 150.000 í höfuðborginni Podgorica. Miðað við mannfjölda er árangur landsliðs þeirra síðustu ár vissulega afar merkilegur.

Svartfjallaland

Svartfjallaland hafnaði í 2. sæti síns riðils í undankeppni EM 2012 á eftir Englandi og komst því í umspil um sæti í lokakeppninni, þar sem mótherjarnir voru Tékkar. Fyrri leikurinn fór fram í Prag í Tékklandi og þar unnu heimamenn 2-0 sigur. Seinni leikurinn fór svo fram í Podgorica, þar sem Tékkar unnu 1-0 sigur og því 3-0 samanlagt. Í undankeppni HM 2014 eru Svartfellingar í riðli með Englandi, Moldavíu, Póllandi, San Marínó og Úkraínu.

Þekktustu leikmenn svartfellska landsliðsins eru allir sóknarmenn. Andrija Delibasic hefur lengst af leikið á Spáni, m.a. með Ream Mallorca, en er nú á mála hjá Rayo Vallecano. Mirko Vucinic hefur átt frábæran feril á Ítaliu með AS Roma og nú Juventus. Stefan Jovetic er leikmaður sem á eftir að láta mikið að sér kveða í framtíðinni. Hann er nú þegar lykilmaður í liði Fiorentina og hefur verið það í nokkur ár, og þessi síðustu ár hefur hann verið orðaður við hvert stórliðið á fætur öðru.

Leikurinn er ekki í beinni útsendingu á íslenskum sjónvarpsstöðvum, en er þó m.a. sýndur beint á sænsku sjónvarpsstöðinni TV10, sem er hluti af Viasat-rásunum.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög