Landslið
A-kvenna-Algarve

A kvenna - Kínverjar lagðir á Algarve

Leikið við Dani um 5. sætið á miðvikudaginn

5.3.2012

Íslendingar lögðu Kínverja í dag í lokaleik liðsins í riðakeppni Algarve Cup.  Lokatölur urðu 1 - 0 fyrir Ísland eftir að staðan hafði verið markalaus í leikhléi.  Fanndís Friðriksdóttir skoraði sigurmarkið á 79. mínútu.

Það var ekki boðið upp á mörg marktækifæri í þessum leik en baráttan var mikil og hart barist um hvern bolta.  Næst því að skora í fyrri hálfleiknum var Margrét Lára Viðarsdóttir en aukaspyrna hennar, utan af kanti, hafnaði í markstönginni.  Reyndar kom íslenska liðið boltanum svo í netið hjá Kínverjum á lokamínútu fyrri hálfleiks en markið var dæmt af vegna brots á markverði Kínverja.

Eina mark leiksins kom svo á 79. mínútu og þar var Fanndís Friðriksdóttir á ferðinni.  Fanndís, sem kom inná sem varamaður 15 mínútum áður, skoraði þá af öryggi eftir stungusendingu frá Hólmfríði Magnúsdóttur.  Kínverska liðið bætti í sóknina undir lokin og sótti töluvert síðustu mínútur leiksins en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Sigurinn tryggir Íslendingum þriðja sætið í riðlinum og er því leikur gegn Danmörku, um 5. sætið, framundan á miðvikudaginn.  Japan og Þýskaland leika til úrslita á mótinu og Bandaríkin og Svíþjóð leika um 3. sætið.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög