Leyfiskerfi

Hátt í 300 leikmenn undirgangast læknisskoðun á hverju ári

Krafa um læknisskoðun leikmanna sett fram í leyfisreglugerð KSÍ

27.11.2013

Hátt í 300 leikmenn hjá félögunum 12 í Pepsi-deild karla undirgangast læknisskoðun á ári hverju vegna þeirra krafna sem settar eru fram í leyfisreglugerð KSÍ.  Um er að ræða 19. grein leyfisreglugerðarinnar, sem kveður jafnframt á um að félög sem leika í UEFA-mótum þurfi að tryggja að þeirra leikmenn undirgangist læknisskoðun samkvæmt þeim kröfum sem settar eru fram í viðkomandi mótareglugerð UEFA.  Sú skoðun gengur lengra en hin almenna læknisskoðun og felst meginmunurinn í þeim kröfum sem gerðar eru til hjartaskoðunar.  Upplýsingar um hvað felst í almennri læknisskoðun er að finna í Tækjakassa leyfiskerfisins, ásamt þar til gerðu skýrsluformi.

Í fylgigögnum með leyfisumsókn þarf að vera staðfesting á því að læknisskoðunin hafi farið fram á fyrra ári.  Félag sem sækir um þátttökuleyfi fyrir keppnistímabilið 2014 leggur þannig fram staðfestingu á að læknisskoðun leikmanna hafi farið fram á árinu 2013.  Leyfiskerfi KSÍ nær til tvegga efstu deilda karla, en krafan um læknisskoðun nær þó eingöngu til félaga í Pepsi-deild karla.  Um er að ræða svokallaða A-kröfu, sem þýðir að hana verður skilyrðislaust að uppfylla ætli viðkomandi félag sér að fá þátttökuleyfi. 

Leyfisreglugerð

Grein 19 – Læknisskoðun leikmanna

19.1 Leyfisumsækjandi í efstu deild karla tryggir að allir leikmenn hans sem eru gjaldgengir í meistaraflokki fari árlega í almenna læknisskoðun, samkvæmt forskrift KSÍ. Staðfesting læknis á að læknisskoðunin hafi farið fram skal lögð fram af leyfisumsækjanda með leyfisumsókn.
19.2 Leyfisumsækjandi í efstu deild, sem unnið hefur sér þátttökurétt í Evrópukeppni félagsliða, skal tryggja að allir leikmenn í meistaraflokki, sem eru gjaldgengir í mótinu, gangist undir læknisskoðun í samræmi við keppnisreglur í viðeigandi móti. 
Leyfiskerfi
Aðildarfélög
Aðildarfélög