Mannvirki
Frá viðburðinum: Guðni Bergsson, formaður KSÍ, ásamt fulltrúum ríkis og borgar. (mynd af vef forsætisráðuneytisins)

Yfirlýsing um skipan starfshóps um uppbyggingu Laugardalsvallar undirrituð

Starfshópurinn á að meta og gera tillögur um mögulega uppbyggingu Laugardalsvallar 

11.1.2018

KSÍ hefur haft til skoðunar um nokkurt skeið mögulega uppbyggingu Laugardalsvallar sem þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu. Í kjölfar góðs árangurs karla- og kvennalandsliða í knattspyrnu hefur farið fram umræða um stöðu Laugardalsvallar í alþjóðlegu samhengi en völlurinn og mannvirki umhverfis hann standast ekki alþjóðlegar kröfur. KSÍ hefur undanfarin misseri skoðað ýmsa möguleika til úrbóta og fyrir liggur hagkvæmniathugun þar sem sviðsmyndir vegna mögulegrar uppbyggingar eru kynntar. Ríki og Reykjavíkurborg hafa stutt verkefnið með fjárframlögum, m.a. vegna kostnaðargreiningar. 

Nú þegar fyrir liggur hagkvæmniathugun, rekstraráætlun, forhönnun og kostnaðarmat mannvirkja liggur fyrir að leggja mat á undirbúningsgögnin og taka ákvörðun um framhald málsins. Forsætisráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík hafa ákveðið að skipa starfshóp í samstarfi við KSÍ sem fara skal yfir fyrirliggjandi tillögur, leggja mat á þær og gera tillögur um mögulega uppbyggingu.


Guðni Bergsson, formaður KSÍ, um yfirlýsinguna:
"Þetta er afar mikilvægur áfangi sem ég fagna mjög og ég finn fyrir jákvæðni og stuðningi í garð verkefnisins af hálfu hagsmunaaðila.  Reykjavíkurborg og ríkisstjórnin eru samstíga með KSÍ í þessu og vil ég þakka þá framsýni. Þetta er orðið mjög tímabært og nauðsynlegt ef við eigum að geta spilað okkar heimaleiki á Laugardalsvelli í framtíðinni.  Ég vænti þess að framgangur málsins verði nokkuð hraður og að lykilákvarðanir verði teknar snemma vors."Mannvirki
Aðildarfélög
Aðildarfélög