Mótamál
Merki Evrópudeildar UEFA

Mögnuð frammistaða íslensku liðanna

Breiðablik úr leik eftir vítaspyrnukeppni - FH fer í umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar

9.8.2013

Frammistaða Breiðabliks og FH í Evrópuleikjunum síðustu tvær vikur hefur verið frábær og landi og þjóð til mikils sóma.  Breiðablik féll úr leik í Evrópudeild UEFA á grátlegan hátt, í vítaspyrnukeppni.  FH er hins vegar enn með, en færist úr forkeppni Meistaradeildar UEFA yfir í umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

BreiðablikBæði Breiðablik og FH höfðu tapað útileikjum sínum með einu marki gegn engu og eygðu því möguleika í heimaleikjum sínum, sem fram fóru í vikunni.  Blikar settu allt í háaloft í á Laugardalsvellinum og háðu æsispennandi einvígi við Aktobe fyrir framan tæplega 2.500 áhorfendur.  Finnur Orri Margeirsson skoraði eina mark venjulegs leiktíma og því var markatalan samanlagt jöfn að loknum 90 mínútum.  Hvorugt liðið náði að skora í framlengingu og því var gripið til vítaspyrnukeppni.  Leikmönnum beggja liða gekk illa að nýta sínar spyrnur, en gestirnir náðu þó að nýta tvær á meðan Blikar skoruðu aðeins úr einni af sínum fimm spyrnum.  Evrópuævintýri Blika þetta árið var því úti.

FHFH-ingar léku sinn leik á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði, voru afar skipulagðir gegn sögufrægu liði Austria Vín og gáfu fá færi á sér.  Gestirnir virtust taugastrekktir og FH-ingar náðu að leika vel sín á milli.  Hagur þeirra vænkaðist þegar leikmaður gestanna fékk reisupassann í seinni hálfleik og FH-ingar eygðu von á að nýta sér liðsmuninn og komast áfram í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar UEFA.  Þeim tókst þó ekki að skora og féllu því úr leik á þessu eina marki sem var skorað í fyrri leiknum.  FH er þó ekki úr leik í Evrópumótum, því með þessum árangri komst liðið í umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildar UEFA, þar sem Blikar hefðu einnig verið ef þeir hefðu unnið sigur í vítakeppninni í sínum leik.

Mótherji FH í umspili er Genk frá Belgíu

Dregið var í umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildar UEFA í dag og verður mótherji FH belgíska liðið Genk.  Leikdagar eru 22. og 29. ágúst og er fyrri leikurinn hér á landi.
Mótamál
Aðildarfélög


Skráning úrslita

Leiðbeiningar Úrslit leikja í öllum flokkum má skrá með SMS-skeyti eða í gegnum aðgang viðkomandi félags að ksi.is í gegnum Séraðgerðir hér að ofan
Aðildarfélög