Mótamál

Inkasso - heil umferð í vikunni

Hefst með fjórum leikjum í dag, miðvikudaginn 30. ágúst

30.8.2017

Heil umferð fer fram í vikunni í Inkasso-deildinni og eru leikirnir þessir: 

19. umferð 

Miðvikudagur 30. ágúst 

Þór – Keflavík á Þórsvelli klukkan 17:30. 

Selfoss – Fylkir á JÁVERK vellinum klukkan 17:45. 

ÍR – HK á Herts vellinum klukkan 18:00. 

Grótta – Fram á Vivaldi vellinum klukkan 19:15. 

Fimmtudagur 31. ágúst 

Haukar – Leiknir R. á Gaman Ferða vellinum klukkan 19:15. 

Laugardagur 2. september 

Þróttur R. – Leiknir F. á Eimskipsvellinum klukkan 13:30. 

Stórleikur umferðarinnar er án efa Þór – Keflavík, en heimamenn sitja í 4. sæti ekki nema sjö stigum frá Keflavík, sem eru efstir. Það má segja að leikurinn sé mikilvægur báðum liðum, en með tapi munu Þór væntanlega stimpla sig út úr baráttunni um sæti í Pepsi deildinni næsta sumar. 

Fylkir er í 2. sæti deildarinnar en þeir sækja Selfyssinga heim. Fylkismenn hafa unnið síðustu tvo leiki sína 4-1 og 5-1 og mæta því sjóðheitir til leiks. Á sama tíma vann Selfoss sinn fyrsta leik síðan 27. júlí í síðustu umferð. 

Haukar og Leiknir R. mætast á Gaman Ferða vellinum. Haukar eiga enn möguleika á að komast í Pepsi deildina, en þurfa til þess að treysta á úrslit hjá öðrum liðum ásamt því að líklega vinna þá leiki sem þeir eiga eftir. Leiknir R. er hins vegar í fínum málum um miðja deild. 

Þróttur R., sem situr í 3. sæti, á ekki leik fyrr en á laugardaginn en þá kemur Leiknir F. í heimsókn á Eimskipsvöllinn. Leiknir F. er í augnablikinu níu stigum frá ÍR, og öruggu sæti, og aðeins 12 stig eftir í pottinum. Þróttur R. er hins vegar í harðri baráttu um að komast í Pepsi deildina og er því um gríðarlega mikilvægan leik að ræða fyrir bæði lið. 

Grótta er hitt liðið í fallsæti en þeir bjóða Fram velkomna á Vivaldi völlinn. Seltirningar eru sjö stigum frá ÍR og er því ekkert annað en sigur sem kemur til greina fyrir þá. Fram siglir nokkuð lygnan sjó í 9. sæti. 

ÍR mætir HK á Hertz vellinum en sigur þar myndi nánast tryggja sæti þeirra í deildinni, og gæti í raun tryggt sæti þeirra ef Grótta og Leiknir F. tapa sínum leikjum. HK er aftur á móti á góðri siglingu í 6. sæti.

Allir á völlinn!
Mótamál
Aðildarfélög
Aðildarfélög


Skráning úrslita

Leiðbeiningar Úrslit leikja í öllum flokkum má skrá með SMS-skeyti eða í gegnum aðgang viðkomandi félags að ksi.is í gegnum Séraðgerðir hér að ofan