Mótamál

Pepsi deild kvenna - 16. umferð fer fram í vikunni

Tveir leikir á mánudag og þrír á miðvikudag

4.9.2017

16. umferð Pepsi deildar kvenna fer fram mánudaginn 4. september og miðvikudaginn 6. september. 

Leikir umferðarinnar eru: 

Mánudagurinn 4. september 

Breiðablik – ÍBV á Kópavogsvelli klukkan 17:30. 

Þór/KA – Stjarnan á Þórsvelli klukkan 17:30. 

Miðvikudagurinn 6. september 

KR – Fylkir á Alvogenvellinum klukkan 17:30. 

FH – Grindavík á Kaplakrikavelli klukkan 17:30. 

Valur – Haukar á Valsvelli klukkan 19:15. 

Breiðablik og ÍBV mætast á mánudaginn í slag liðanna í 2. og 4. sæti deildarinnar. Breiðablik vann KR 2-0 á útivelli í síðasta leik sínum á meðan ÍBV vann Þór/KA 3-2 og varð með því fyrsta liðið til að vinna Akureyringa í deildinni í sumar. Blikar eru aðeins fimm stigum á eftir Þór/KA eftir síðustu umferð og getur liðið því sett meiri pressu á þá með sigri hér. ÍBV er á sama tíma sjö stigum á eftir toppliðinu. 

Það er stórleikur á Þórsvelli á mánudaginn þegar Þór/KA og Stjarnan mætast. Akureyringar töpuðu sínum fyrsta leik í deildinni í síðustu umferð, gegn ÍBV í Eyjum, á meðan Stjarnan vann FH 2-0. Þegar þrír leikir eru eftir af deildinni er Þór/KA með fimm stiga forskot á Breiðablik, en Stjarnan situr í 5. sæti átta stigum á eftir toppsætinu. 

Á miðvikudaginn er stórleikur í fallbaráttunni þegar KR bíður Fylki velkomnar í Vesturbæinn. Fylkir vann góðan sigur á Haukum í síðustu umferð á meðan KR tapaði heima fyrir Breiðablik. Fylkir er því aðeins fjórum stigum á eftir KR og er þetta því gríðarlega mikilvægur leikur í baráttunni á botninum. Með sigri getur KR tryggt sæti sitt í deildinni meðan Fylkir yrði aðeins stigi á eftir KR með sigri. 

FH og Grindavík mætast á Kaplakrikavelli klukkan 17:30 á miðvikudaginn, en liðin sitja í 6. og 7. sæti. FH hefur þegar tryggt sæti sitt í deildinni að ári en Grindavík getur enn fallið, en þær eru sex stigum frá Fylki. 

Í síðasta leik umferðarinnar mætast síðan Valur og Haukar á Valsvelli klukkan 19:15. Valsstúlkur unnu frábæran 3-0 sigur í Grindavík í síðustu umferð og eru komnar í 3. sæti, sjö stigum á eftir Þór/KA. Það var hins vegar ljóst að Haukar eru fallnar, en það varð staðfest þegar liðið tapaði fyrir Fylki í síðustu umferð.

Allir á völlinn!
Mótamál
Aðildarfélög
Aðildarfélög


Skráning úrslita

Leiðbeiningar Úrslit leikja í öllum flokkum má skrá með SMS-skeyti eða í gegnum aðgang viðkomandi félags að ksi.is í gegnum Séraðgerðir hér að ofan