Mótamál

Pepsi deild karla - Heil umferð í dag

Valur getur orðið Íslandsmeistari

14.9.2017

Heil umferð fer fram í dag, fimmtudaginn 14. september, í Pepsi deild karla og gæti Valur orðið Íslandsmeistari með hagstæðum úrslitum. 

Leikir dagsins eru:

KA – Valur á Akureyrarvelli klukkan 17:00 

Breiðablik – KR á Kópavogsvelli klukkan 17:00 

ÍBV – Grindavík á Hásteinsvelli klukkan 17:00 

Fjölnir – ÍA á Extra vellinum klukkan 17:00 

Víkingur R. – FH á Víkingsvelli klukkan 17:00 

Stjarnan – Víkingur Ó. á Samsung vellinum klukkan 19:15 

Valur þarf aðeins fjögur stig í mesta lagi í viðbót til að tryggja sér titilinn, og gæti jafnvel orðið Íslandsmeistari í dag með hagstæðum úrslitum. Liðið mætir KA á Akureyri, en KA situr í 6. sæti og á ennþá einhvern möguleika á sæti í Evrópukeppni. Fyrri leikur liðanna endaði 1-0 fyrir Val.

Breiðablik og KR mætast á Kópavogsvelli. Bæði lið töpuðu leikjum sínum í síðustu umferð, en KR situr í 4. sæti á meðan Breiðablik er í því sjöunda. KR er í mikilli baráttu um sæti í Evrópu og er leikurinn því gríðarlega mikilvægur fyrir liðið. Á meðan er stutt í báðar áttir hjá Breiðablik og því ljóst að um mikilvægan leik er að ræða fyrir þá einnig. Fyrri leikur liðanna endaði með 1-1 jafntefli. 

ÍBV og Grindavík mætast á Hásteinsvelli. ÍBV vann frábæran 3-0 útisigur á KR í síðustu umferð meðan Grindavík tapaði 1-0 fyrir FH í Kaplakrika. ÍBV er í mikilli baráttu á botni deildarinnar, en með sigrinum á KR er liðið aðeins stigi frá Fjölni og Víking Ó. Grindavík er aftur á móti í 5. sæti og er enn í baráttu um sæti í Evrópukeppni að ári. Fyrri leikur liðanna endaði 3-1 fyrir Grindavík. 

Fjölnir og ÍA mætast í miklum fallbaráttuslag á Extra vellinum í Grafarvogi. ÍA vann sinn fyrsta leik í langan tíma í síðustu umferð þegar það vann 2-0 sigur á KA. ÍA er enn sjö stigum frá öruggu sæti en allt getur gerst í fótbolta. Á sama tíma gerði Fjölnir 4-4 jafntefli við Víking Ólafsvík og er aðeins einu stigi á undan ÍBV. Þetta verður því mikilvægur leikur fyrir bæði lið. Fyrri leikur liðanna endaði 3-1 fyrir ÍA. 

Víkingur R. og FH mætast á Víkingsvelli. Víkingar gerðu 2-2 jafntefli við Stjörnuna í síðustu umferð á meðan FH vann Grindavík 1-0. Víkingur R. er aðeins fjórum stigum fyrir ofan ÍBV og því gætu þeir auðveldlega dregist niður í fallbaráttunni að fullu. FH er í 3. sæti og á leik til góða og er í mikilli baráttu um sæti í Evrópukeppni að ári. Fyrri leikur liðanna endaði 2-2. 

Stjarnan og Víkingur Ó. mætast í síðasta leik dagsins í Garðabænum. Bæði lið gerðu jafntefli í síðustu umferð, Stjarnan við Víking R. og Víkingur Ó. við Fjölni. Stjarnan er níu stigum á eftir Val og því erfitt að ná Hlíðarendapiltum, á meðan Víkingur Ó. er í mikilli fallbaráttu. Fyrri leikur liðanna endaði 2-1 fyrir Víking Ó.

Allir á völlinn!
Mótamál
Aðildarfélög
Aðildarfélög


Skráning úrslita

Leiðbeiningar Úrslit leikja í öllum flokkum má skrá með SMS-skeyti eða í gegnum aðgang viðkomandi félags að ksi.is í gegnum Séraðgerðir hér að ofan