Mótamál

Pepsi deild kvenna - Titilbaráttan ræðst í dag

Þrír leikir fara fram í dag, fimmtudag, og tveir á föstudag

28.9.2017

Síðasta umferð Pepsi deildar kvenna fer fram í dag, fimmtudag, og föstudag. 

Í dag er sannkallaður úrslitadagur, en þá fara fram þrír leikir. Þór/KA – FH, Breiðablik – Grindavík og Haukar - ÍBV. 

Því er ljóst að titilbaráttan ræðst þá.

Fimmtudagurinn 28. september 

Þór/KA – FH á Þórsvelli klukkan 16:15 

Breiðablik – Grindavík á Kópavogsvelli klukkan 16:15

Haukar – ÍBV á Gaman Ferða vellinum klukkan 17:30

Föstudagurinn 29. september 

Fylkir – Stjarnan á Floridana vellinum klukkan 16:15 

Valur – KR á Valsvelli klukkan 17:00 

Þór/KA og FH mætast á Akureyri og tryggir Þór/KA sér titilinn með sigri. Jafntefli yrði ekki nóg ef svo færi að Breiðablik vinni Grindavík. FH vann góðan sigur á Val í Kaplakrika í síðustu umferð, 2-0, á meðan Þór/KA tapaði 3-2 í Grindavík. Fyrri leikur liðanna endaði 1-0 fyrir Þór/KA. 

Breiðablik og Grindavík mætast í Kópavoginum og er ljóst að Blikar verða að vinna ef þær ætla að eiga möguleika á því að stela titlinum af Þór/KA. Þær hafa verið í góðu formi undanfarið og unnið síðustu fimm leiki sína á meðan Grindavík tókst að vinna Þór/KA í síðustu umferð, 3-2. Fyrri leikur liðanna endaði 5-0 fyrir Breiðablik. 

Haukar og ÍBV mætast í Hafnarfirðinum, en ljóst er að Haukar enda tímabilið í neðsta sæti. Þær nældu hins vegar í sinn fyrsta sigur í síðustu umferð þegar þær unnu KR í Vesturbænum, 3-0. ÍBV gerði á sama tíma markalaust jafntefli við Fylki og sitja í fjórða sæti deildarinnar. Fyrri leikur liðanna endaði 3-0 fyrir ÍBV. 

Fylkir og Stjarnan eigast við í Árbænum á föstudaginn. Fylkir mun enda tímabilið í níunda sæti á meðan Stjarnan endar í fjórða eða fimmta sæti. Fylkir nældi í gott stig gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í síðustu umferð, en Stjarnan tapaði 2-0 heima fyrir Breiðablik. Fyrri leikur liðanna endaði 1-0 fyrir Stjörnunni. 

Valur og KR mætast í síðasta leik tímabilsins á Valsvellinum. Valur tapaði fyrir FH, 0-2, í síðustu umferð á meðan KR varð fyrsta liðið til að tapa fyrir Haukum. Valur er í þriðja sæti deildarinnar, en gæti fallið niður í það fjórða. KR situr í áttunda sæti, en gæti náð Grindavík og skotist upp í það sjöunda. Fyrri leikur liðanna endaði 5-0 fyrir Val.

Allir á völlinn!
Mótamál
Aðildarfélög
Aðildarfélög


Skráning úrslita

Leiðbeiningar Úrslit leikja í öllum flokkum má skrá með SMS-skeyti eða í gegnum aðgang viðkomandi félags að ksi.is í gegnum Séraðgerðir hér að ofan