Pistlar
Karl Guðmundsson

Karl Guðmundsson - Minning

Kveðja frá KSÍ

4.7.2012

Knattspyrnuhreyfingin minnist við andlát Karls Guðmundssonar félaga sem tengdist leiknum ævilangt, fyrst innan vallar en síðan með áratuga starfi einkum við þjálfun og fræðslustörf. Þáttur Karls í uppbyggingu íslenskrar knattspyrnu er stór og knattspyrnuhreyfingin á honum margt að þakka.

Karl byrjaði ungur að leika knattspyrnu með Fram og var leikmaður í Íslandsmeistaraliði Fram 1946 og 1947. Hann lék 10 fyrsti landsleiki Íslands á árunum 1946-1954 og stjórnaði landsliðinu í 20 leikjum á árunum 1954-1966. Var ekki þjálfari liðsins 1957, heldur ekki er hann var þjálfari hjá norsku liðunum Lilleström 1958 og 1960 og Sandefjord 1962.

Karl útskrifaðist sem íþróttakennari frá Íþróttakennaraskólanum að Laugarvatni 1944, en þar sem engin kennsla í knattspyrnufræðum var við skólann, fór Karl út til að afla sér menntunar sem knattspyrnuþjálfari. Hann var fyrsti Íslendingurinn til að fara út fyrir landsteinana til að ná sér í þjálfaramenntun, er hann fór til árs dvalar á Englandi 1946. Þá lá leiðin til Kölnar í Þýskalandi 1949 og síðan sótti hann fjölmörg þjálfaranámskeið víðs vegar um Evrópu. 

Hann var þjálfari Fram átta keppnistímabil 1949, 1952-1954, 1956 og 1966-1968. Karl þjálfaði ÍA 1948 og ÍBH 1961. Þá stjórnaði Karl KR-liðinu um tíma árið 1964 og í fyrstu Evrópuleikjum KR gegn Liverpool. Hann var einnig þjálfari hjá bikarmeisturum Vals 1965, og aðstoðaði við þjálfun hjá Þrótti R. og Keflavík 1964.

Þegar Karl var ráðinn landsliðsþjálfari 1954 tók hann einnig að sér ýmis þjálfara- og fræðslumál fyrir KSÍ og gerði það öll þau ár sem hann var landsliðsþjálfari.

Sú nýbreytni var tekin upp 1955 að KSÍ hélt námskeið fyrir þjálfara að Laugarvatni og sá Karl um veg og vanda námskeiðanna.

Þegar KSÍ hljóp undir bagga með þjálfun hjá félögum í 1. deild fyrir keppnistímabilið 1959 var Karl fenginn til að sjá um æfingar hjá félögum við Austurbæjarskólann. Það gerði hann í nokkur ár. Þegar KSÍ setti upp "Æfingamiðstöð KSÍ" í Austurbæjarskólanum snemma árs 1964, stjórnaði Karl æfingum hjá félögum þeim að kostnaðarlausu einu sinni í viku og þá fór hann til Keflavíkur einu sinni í viku.

Karl var formaður fyrstu tækninefndar KSÍ, sem var sett á laggirnar 1961 og sá hann um stjórnun á öllun þjálfaranámskeiðum á vegum KSÍ í áraraðir.

Árið 1975 var Karl skipaður skólastjóri Þjálfaraskóla KSÍ. Skólinn stóð yfir í tvo og hálfan mánuð og var alls 212 kennslustundir. Þátttakendur voru 20 og heimsóttu fjórir erlendir þjálfarar skólann.
Sama ár veitti KSÍ aðildarfélögum aðstoð við að útbúa æfingaplön og sá Karl um að veita þá aðstoð.

Karl var ráðinn framkvæmdastjóri KSÍ 1976 í hlutastarfi og starfaði hann á skrifstofu sambandsins þrjú sumur, eða þar til að hann sagði starfi sínu lausu í september 1978.

Knattspyrnuhreyfingin sendir fjölskyldu og ættingjum Karls Guðmundssonar innilegar samúðarkveðjur um leið og hún kveður félaga sem átti svo stóran þátt í eflingu íslenskrar knattspyrnu á seinni hluta síðustu aldar sem raun ber vitni.

Geir Þorsteinsson,
formaður
.
Pistlar
Aðildarfélög
Aðildarfélög