Pistlar
Geir Þorsteinsson

Saga landsliðsins er saga leikmanna og þjálfara

Sigmundur Ó. Steinarsson hefur ritað sögu íslenska landsliðsins 

12.12.2014

Fyrsti landsleikur í knattspyrnu fór fram á Melavellinum 17. júlí 1946 þegar landslið Íslands mætti landsliði Danmerkur. Mikill og vandaður undirbúningur stóð yfir í marga mánuði til þess að vel mætti til takast á allan hátt. Huga þurfti m. a. að móttöku danska liðsins og norska dómarans, kynningu leiksins, undirbúningi leikvallar, skipun þjálfara, vali á íslenska liðinu og æfingum, miðasölu og svo auðvitað fjárhagslegu hliðinni. Eftir mikinn og vandaðan undirbúning mættu um 8.000 áhorfendur á fyrsta landsleikinn. Þeir fóru heim leiðir í skapi, eins og einn íþróttafréttamaðurinn greindi frá, eftir 0-3 ósigur gegn Dönum, ekki vegna úrslitanna heldur vegna þess hve illa íslenska liðið lék. Ekki voru leikirnir margir í byrjun, aðeins einn á hverju ári 1946-1949 og enginn 1950. Fyrsti sigurinn vannst á Finnum á Melavellinum 1948, 2-0, og fyrsti leikur erlendis fór fram í Árósum í Danmörku 1949 þar sem Danir unnu með fimm mörkum gegn einu.

Landslið Íslands í knattspyrnu hafði stigið sín fyrstu skref, leikjum fjölgaði jafnt og þétt og eru nú um 10 talsins á ári hverju. Í lok ársins 2014, hefur landsliðið leikið 422 landsleiki, flesta í Evrópu, en einnig í Afríku, Ameríku og Asíu. Lengi býr að fyrstu gerð og þó að undirbúningur fyrir hvern leik hafi breyst á ýmsan hátt frá fyrsta leiknum 1946 eru sumir þættir hans óbreyttir. Það krefst enn mikils undirbúnings að skipuleggja landsleik hvort sem leikið er á heimavelli eða erlendis og þó að kappleikurinn sjálfur hafi ætíð varað í 90 mínútur er það aðeins lítið brot af þeim tíma sem farið hefur í undirbúning hans. Lengi vel voru það aðeins sjálfboðaliðar sem komu að því starfi en með eflingu knattspyrnunnar í heiminum og markaðsvæðingu hefur það starf að mestu flust í hendur starfsmanna knattspyrnusambanda. Allir þeir fjölmörgu sjálfboðaliðar sem lagt hafa landsliði Íslands lið eiga þakkir skildar, ekki síst í byrjun þegar efnin voru lítil en menn voru stórhuga og horfðu björtum augum til framtíðar í keppni við aðrar þjóðir, ávallt fullir bjartsýni á góð úrslit.

En saga landsliðsins er saga leikmanna og þjálfara sem gert hafa garðinn frægan með góðri frammistöðu í milliríkjaleikjum og ekki síður hinna sem ávallt svöruðu kallinu og gáfu sig alla í hvern leik. Það var og er æðsti heiður hvers knattspyrnumanns að vera valinn til að koma fram fyrir hönd þjóðar sinnar í keppni, þar sem árangur næst ef leikmenn vinna saman og mynda sterka liðsheild. Þessi saga lýsir vel hvernig kynslóðir leikmanna komu og fóru, hvernig þjálfarar komu og fóru - alltaf var vonin um góð úrslit öllu öðru sterkari, þrátt fyrir ótal vonbrigði og áföll á langri leið. En svo komu stundir þar sem allt gekk landsliðinu í haginn, góð úrslit litu dagsins ljós og Ísland lék sinn besta leik. Draumurinn um þátttöku í úrslitakeppni Evrópumóts eða heimsmeistarakeppni hefur lifað lengi og lifir enn.

Sigmundur Ó. Steinarsson hefur ritað sögu íslenska landsliðsins sem hér birtist. Með þessari útgáfu og tveimur bókum Sigmundar um 100 ára sögu Íslandsmótsins hefur Knattspyrnusamband Íslands haldið til haga mikilvægum þáttum í sögu íslenskrar knattspyrnu. Ég vil þakka Sigmundi hans miklu og góðu ritstörf fyrir íslenska knattspyrnu, hann á heiður skilinn fyrir þau og ekki síður fyrir ótakmarkaðan áhuga á söfnun og varðveislu heimilda sem nýst gætu í sögu sem þessa.  

Geir Þorsteinsson,

formaður KSÍ.
Pistlar
Aðildarfélög
Aðildarfélög